Rex Heuermann, sem grunaður er um að hafa orðið fjölda kvenna að bana, verður að öllum líkindum ákærður fyrir að hafa orðið fjórðu konunni að bana í dag. New York Post greinir frá.
Heuermann hefur þegar verið ákærður fyrir að hafa orðið þremur konum, sem allar unnu sem vændiskonur, að bana.
Búist er við því að saksóknari í Suffolk-sýslu gefi út ákæruna í dag en Heuermann hefur legið undir grun í málinu.
Konan sem hann er talinn hafa myrt hét Maureen Brainard-Barnes og var 25 ára gömul er hún hvarf árið 2007.
Lík hennar var bundið með belti með áletruninni WH eða HM. Kunna stafirnir að hafa verið í eigu afa Heuermann, William Heuermann.
Heuermann var handtekinn í júlí á síðasta ári. Hann er kvæntur Ásu Guðbjörgu Ellerup, íslenskri konu. Hún hefur sótt um skilnað við Heuermann.