Fordæma árásir Írana á Írak

Byltingarverðir Írans gerðu eldflaugaárásir á borgina Irbil í norðurhluta Íraks.
Byltingarverðir Írans gerðu eldflaugaárásir á borgina Irbil í norðurhluta Íraks. AFP

Bandaríkjamenn hafa fordæmt Írana vegna eldflaugaárása þeirra nálægt borginni Irbil í norðurhluta Íraks í gærkvöld.

Byltingarverðir Írans greindu frá því að þeir hefðu skotið eldflaugum á það sem þeir fullyrtu að væru höfuðstöðvar njósnara Ísraela í Kúrdistan-héraði í Írak. Fjórir létu lífið og sex særðust í árásinni að sögn öryggisráðs Kúrdistans.

Írakar hafa sömuleiðis fordæmt árásirnar og segja þær brot á fullveldi sínu. Árásirnar eru tilkomnar vegna aukinnar spennu á svæðinu síðan stríð Ísraelsmanna gegn Hamas-hryðjuverkasamtökunum, sem styðja Íran, braust út á Gasasvæðinu þann 7. október.

Bandaríkin styðja fullveldi Íraks

„Við munum halda áfram að meta stöðuna en fyrstu vísbendingar eru um að þetta hafi verið kærulaus og ónákvæm árás. Bandaríkin styðja fullveldi og sjálfstæði Íraks,“ sagði Adrienne Watson, talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, í yfirlýsingu.

Forsætisráðherra Kúrdistans-héraðsstjórnar, Masrour Barzani, fordæmdi árásina á Irbil sem glæp gegn kúrdísku þjóðinni. 

Byltingarverðir Írans sögðust einnig hafa skotið á vígstöðvar Íslamska ríkisins í Sýrlandi á mánudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert