Mál Jeffries komið á borð alríkislögreglunnar

Mike Jeffries
Mike Jeffries AFP

Bandaríska alríkislögreglan hefur hafið rannsókn á meintum kynferðisbrotum fyrrverandi forstjóra Abercrombie Fitch (A&F) sem er sakaður um að hafa brotið gegn karlmönnum á viðburðum sem haldnir voru á hans vegum víða um heim.

BBC greinir frá en breski miðillinn greindi fyrst frá ásökununum um meintu brotin í október.

Mike Jeffries, fyrrverandi forstjórinn, og Matthew Smith, maki hans, eru sagðir eiga yfir höfði sér ákæru um að hafa rekið mansalshring.

Samkvæmt heimildum miðilsins hefur lögregla þegar hafið yfirheyrslur á mögulegum vitnum. 

Átta karlmenn stigu fram

BBC fjallaði fyrst um málið í heimildarmynd og hlaðvarpi fjölmiðilsins í október á síðasta ári.

Átta karlmenn stigu fram og greindu frá kynferðisofbeldi af hálfu Jeffries og Smith. Er ofbeldið sagt hafa átt sér stað á viðburðum á vegum parsins frá árinu 2009 og 2015. 

Viðburðirnir voru haldnir víða um heim, meðal annars í London, París og Marrakesh.

Að sögn mannanna sem stigu fram voru þeir bæði misnotaðir af Jeffries og Smith, auk þess sem þeim var skipað að stunda kynmök með hver öðrum.

Í heimildarmynd BBC kom fram að viðburðirnir hefðu verið vel skipulagðir. Er miðillinn með skjöl undir höndum sem staðfesta þetta, þar á meðal flugmiða og dagskrá viðburða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert