Emmanuel Macron Frakklandsforseti tilkynnti í gær nýtt tilraunaverkefni sem snýr að upptöku skólabúninga innan Frakklands.
Tilraunaverkefnið mun eiga sér stað til að byrja með í 100 skólum og ef vel gengur er stefnt að því að gera skólabúninga að skylduklæðnaði í öllum skólum Frakklands.
Í gær bauð Macron fjölmiðlamönnum í forsetahöllina, Élysée, og sat fyrir svörum í rúma tvo tíma, þar sem stiklað var á ýmsu í tengslum við málið.
Macron sagði að upptaka skólabúninga gæti dregið úr stéttaskiptingu milli nemenda og skapað rými þar sem virðing er í hávegum höfð. Þá studdi hann þá hugmynd að tryggja skuli að öll börn læri þjóðarsöng Frakka á fyrstu árum grunnskóla.
„Hver kynslóð Frakka verður að læra hvað felst í lýðveldinu,“ sagði hann.
Forsetinn vonaðist einnig eftir því að gera leiklist að skyldufagi í skólum Frakklands og segir fagið tengja nemendur við merk leikverk ásamt því að kenna þeim sjálfsöryggi og sviðsframkomu.
Hann varpaði einnig fram þeirri hugmynd að takmarka tölvunotkun barna, en ekki kom fram með hvaða hætti það yrði gert.
Macron ítrekaði stuðning sinn við Úkraínu á fundinum og sagði stríðið í landinuvera sitt helsta áhyggjuefni.
„Við megum ekki lúta í lægra haldi fyrir Rússlandi. Ef það gerist brestur öryggi Evrópu og nágrannalanda Rússlands.“
Þá sagði hann að Frakkland hefði ekki gengið til liðs við Bandaríkin og Bretland í árás þeirra á Húta í Jemen til þess að forðast „stigmögnun“ átaka.
Macron lofaði lögum og reglu á götum Frakklands með því að: „Hafa heimil á landmærunum, berjast gegn óæskilegri hegðun með því að tvöfalda fjölda lögreglumanna á götunum, berjast gegn eiturlyfjum og berjast gegn öfgafullum iðkendum íslams.“
Á sama tíma fagnaði hann sigri sínum á öflum sem eru langt til hægri í síðustu kosningum og vísaði til Marine Le Pen, formanns National Rally: „Það gleður mig að hafa hindrað starfsemi þeirra og ég mun gera allt í mínu valdi til þess að halda áfram að hindra framgang þeirra, enda er það í þágu þjóðarinnar.“