Háskólaráðherra segir af sér vegna ritstuldar

Háskólaráðherra Noregs sagði af sér í kvöld.
Háskólaráðherra Noregs sagði af sér í kvöld. AFP

Háskólaráðherra Noregs, hin 35 ára Sandra Borch, hefur sagt af sér eftir sem ráðherra að upp komst um ritstuld í meistararitgerð hennar. NRK greinir frá.

Fráfarandi ráðherrann hefur gengist við því að hafa notfært sér texta tveggja annara nemenda án þess að vísa í heimildir og rötuðu jafnvel stafsetningarvillur nemendanna í meistararitgerð hennar.

„Ég gerði stór mistök“

„Ég gerði stór mistök. Ég notaði texta úr ritgerðum annarra án þess að gæta heimilda. Ég biðst innilegrar afsökunar,“ sagði hún á blaðamannafundi í dag.

Norskir miðlar höfðu fjallað um líkindi meistararitgerðar hennar frá árinu 2014 og ritgerða annarra nemenda. Einn þeirra vakti athygli á því að Borch hafi tekið frá honum texta og stafsetningarvillur hafi þar ekki verið undanskildar. Fjallaði hún um öryggiskröfur í olíuiðnaði í meistaraverkefni sínu við Háskólann í Tromsö.

Borch varð háskólaráðherra á síðasta ári og situr á þingi fyrir hönd Miðflokksins. Var hún áður landbúnaðarráðherra frá 2021 til 2023 í ríkisstjórn Noregs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert