Ísraelska rannsóknarlögreglan Lahav 433 rannsakar nú um 50.000 sönnunargögn og fer yfir 1.500 vitnisburði um nauðganir og annað kynferðislegt ofbeldi sem skæruliðar Hamas-hryðjuverkasamtakanna eru taldir hafa beitt ísraelska borgara í innrás sinni 7. október í haust.
Frá þessu greinir breska dagblaðið Guardian og enn fremur því að á myndskeiði frá innrásinni megi sjá unga konu liggja á grúfu á hleðslurými pallbifreiðar þar sem maður rífur í hár hennar á meðan aðrir sem þar eru heyrast hrópa lofsyrði til guðs síns, Allah.
Þá var myndefni af líki hinnar ísraelsk-þýsku Shani Louk með því fyrsta frá innrásardeginum sem komst í dreifingu. Er þar um að ræða myndskeið sem sýnir lík Louk, sem var 22 ára gömul er hún mætti örlögum sínum, borið í skrúðgöngu um götur Gasaborgar.
Þá mánuði, sem liðnir eru frá innrásinni í október, hefur ógrynni myndefnis skotið upp kollinum frá þeim örlagaríku klukkustundum sem árásin tók. Hafa blaðamenn The Guardian borið myndefni frá ísraelskum almenningi og viðbragðsaðilum saman við framburð vitna hjá ísraelsku lögreglunni og með því tekist að svipta hulunni af að minnsta kosti sex tilfellum þar sem Hamas-liðar brjóta kynferðislega á fórnarlömbum sínum.
Samkvæmt framburði Ruth Halperin-Kaddari, lagaprófessors og alþjóðlegrar baráttukonu fyrir réttindum kvenna, var að minnsta kosti sjö myrtum konum nauðgað áður en þær voru teknar af lífi en prófessorinn hefur farið yfir myndefni og önnur gögn frá 7. október. Bandarísku fjölmiðlarnir New York Times og NBC hafa til samans borið kennsl á þrjátíu konur og stúlkur sem Hamas-liðar myrtu og bera áverka sem benda til kynferðisofbeldis.
Fyrstu dagana eftir árásina lagði starfsfólk líkhúsa Ísraelsmegin við landamærin höfuðáherslu á að bera kennsl á þær jarðnesku leifar sem hrúguðust þangað inn án afláts, minna var hugað að nákvæmari skoðun áverka að sögn Mirit Ben Mayor, upplýsingafulltrúa lögreglunnar. Þá hafi skortur á faglærðu starfsfólki skapað vandkvæði en eftir því sem ísraelska dagblaðið Haaretz greinir frá hefur allt landið aðeins á að skipa sjö réttarmeinafræðingum.
Að sögn starfsfólks Zaka, neyðarviðbragðsaðila Ísraels, vinnur starfsfólk þaðan oftast með lögreglu á vettvangi hryðjuverka með þeim hætti að löggæsluyfirvöldum sé kleift að safna gögnum áður en fólk á vegum Zaka fjarlægir líkin. Hefur starfsfólkið nú gefið það út að fæstir hefðu áttað sig á því að þeir hefðu verið að spilla sönnunargögnum samtímis því sem þeir reyndu að meðhöndla hina látnu af virðingu. „Við hugsuðum aldrei út í nauðganir,“ sagði starfsfólk Zaka.
Annað sem spillti fyrir lögreglurannsókn er hin gyðinglega hefð að jarðsetja látna svo fljótt sem verða má eftir andlátið sem gerði það að verkum að lögreglu vannst ekki ráðrúm til að rannsaka fjölda líka með tilliti til kynferðisbrota.
Simcha Greeneman, sjálfboðaliði sem starfaði með Zaka í kjölfar innrásar Hamas-liða, ræddi við The Guardian og sagði frá því að hann hefði komið að látinni konu sem hefði verið nakin neðan mittis og líkið beygt fram yfir rúm. Hún hefði verið skotin í hnakkann. Í leggöngum annarrar látinnar konu, sem fannst á heimili sínu, hefði hann uppgötvað fjölda oddhvassra hluta, meðal annars nagla.
Shari Mendes, sem starfar í Shura-herstöðinni inni í miðju landi í Ísrael, sagði The Guardian að þangað hefðu komið lík kvenna sem báru öll merki þess að hafa verið nauðgað og voru fórnarlömbin allt frá fullorðnum konum niður í stúlkubörn.
„Við vorum í áfalli [...] Lík margra ungra kvenna komu inn til okkar klædd aðeins blóðugum fatatætlum og nærfötin voru oft alblóðug. Teymisstjórinn okkar sá nokkra kvenkyns hermenn sem höfðu verið skotnar í kynfærin eða brjóstin,“ sagði Mendes frá.
Ung kona, sem sótti Supernova-tónlistarhátíðina og var skotin í bakið, lá og faldi sig í gróðri á hátíðarsvæðinu þaðan sem hún varð vitni að hópnauðgun. Sagði hún við skýrslugjöf hjá lögreglu, sem blaðamenn The Guardian hafa séð á upptöku, að stór hópur Hamas-liða hefði komið inn á hátíðarsvæðið og myrt þar fimm konur en alls týndu 350 gestir hátíðarinnar lífinu.
Hefðu mennirnir skipst á að nauðga einni kvennanna uns einn þeirra hefði skorið af henni annað brjóstið og hent því á jörðina þar sem mennirnir hefðu svo „leikið sér með það“, svo notuð séu hennar eigin orð. Aðra konu hefðu þeir „tætt í sundur“ (e. „shredded to pieces“) og sú þriðja verið stungin ítrekað í bakið á meðan henni hefði verið nauðgað.
Einn skipuleggjenda Supernova, Rami Shumel, sem kom á vettvang daginn eftir innrás Hamas, lýsti aðkomunni og kvaðst meðal annars hafa komið að líkum þriggja ungra kvenna sem lágu naktar að neðan með sundurglennta fótleggi á jörðinni. „Kveikt hafði verið í andliti einnar þeirra,“ sagði Shumel, önnur hefði verið skotin í andlitið og sú þriðja haft fjölda skotsára á neðri hluta líkamans.
Renana Eitan er yfirgeðlæknir á Ichilov Tel Aviv-heilsugæslunni og greinir hún The Guardian frá því að fjórtán þeirra sem Hamas-liðar héldu í gíslingu vikum saman hlytu enn aðhlynningu vegna upplifana sinna þar og hefðu margir þeirra, þar á meðal börn, sætt kynferðislegri misnotkun eða orðið vitni að henni.
Nefnd sérfræðinga á vegum Sameinuðu þjóðanna gaf það út á mánudaginn að miðað við fjölda fórnarlamba og vandlegan undirbúning árásarinnar ásamt sívaxandi fjölda sönnunargagna um nauðganir og limlestingu kynfæra mætti leiða líkur að því að árás Hamas-liða 7. október í fyrra teldist glæpur gegn mannkyni.
Á að minnsta kosti tveimur upptökum af yfirheyrslum meintra Hamas-liða í haldi Ísraela, sem ísraelsk stjórnvöld kveðast ekki hafa gefið grænt ljós á að yrðu gerðar opinberar, heyrast fangarnir greina frá því að þeim hafi verið veitt tilsögn í því hvernig ætti að nauðga konum.
Lagaprófessorinn Halperin-Kaddari segir að erfitt muni reynast að tengja ákveðna menn í haldi Ísraela við ákveðna glæpi í innrásinni í haust. Þar væri alþjóðleg rannsókn líklegri til að skila árangri en rannsókn sem Ísraelar einir framkvæmdu.
„Að hefja saksókn vegna þessara óhæfuverka í heild sinni og þeirrar grimmdar sem þar var höfð í frammi [...] til þess höfum við nóg [af gögnum] nú þegar,“ segir Halperin-Kaddari.