Annar norskur ráðherra sakaður um ritstuld

Norska þingið. Tveir ráðherrar í ríkisstjórn hafa verið sakaðir um …
Norska þingið. Tveir ráðherrar í ríkisstjórn hafa verið sakaðir um ritstuld. Ljósmynd/Stortinget

Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra Noregs, er sökuð um ritstuld í meistararitgerð sinni frá árinu 2021. Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, hefur rætt við ráðherrann vegna málsins. 

Háskólaráðherra Noregs, Sandra Borch, sagði af sér í fyrradag vegna ritstuldar í meistararitgerð sinni.

Norski miðillinn VG greindi í gær frá því að ritgerð Kjerkol væri sláandi lík þremur meistararitgerðum sem var skilað á árunum á milli 2014 og 2021 og námsbók frá árinu 2021. Þessu komst miðillinn að eftir að hafa keyrt ritgerðina, sem fjallar um heilbrigðistækni í heimaþjónustu, í gegnum forritið Copyleaks.

Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra Noregs.
Ingvild Kjerkol, heilbrigðisráðherra Noregs. Ljósmynd/Stortinget

Segist ekki hafa viljað eigna sér textann

Kjerkol segir í skriflegu svari til VG að hún hafi ekki ætlað sér að eigna sér textann sem umfjöllunin vísar til. Setur miðillinn fram nokkur dæmi þar sem má sjá samanburð á texta Kjerkol og eldri meistaraverkefnum sem innihéldu sama texta orðrétt.

Støre segist hafa rætt við ráðherrann og telur mikilvægt að upplýst verði um málið.

„Ég hef rætt við Kjerkol um framkomnar upplýsingar sem lúta að meistararitgerð hennar. Nú er mikilvægt að ná hinu rétta fram. Minn skilningur er að málið sé í skoðun hjá Nord-háskólanum, sem er vel,“ segir ráðherrann í skriflegu svari til VG. Stjórn háskólans fer yfir málið á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert