Hamas-hryðjuverkasamtökin segja að hryðjuverkaárásin á Ísrael þann 7. október hefði verið „nauðsynlegt skref“ gegn hernámi Ísraelsmanna. Samtökin krefja Ísraelsmenn um að hætta árásum sínum á Gasaströndina. Aðeins palestínska þjóðin fái að ráða framtíð svæðisins.
Í 16 blaðsíðna skýrslu um árásirnar viðurkenndu hryðjuverkasamtökin að „nokkrir gallar komu upp... vegna skjóts hruns ísraelska öryggis- og hermálakerfisins og óreiðu sem skapaðist á landamærasvæðum Gasa“.
Skjalið er fyrsta opinbera skýrsla samtakanna þar sem þau reyna að færa rök fyrir hryðjuverkaárásinni þann 7. október, þegar vígamenn Hamas drápu um 1.140 manns, aðallega almenna borgara, samkvæmt talningu AFP sem byggir á opinberum tölum frá Ísrael.
Samtökin segja árásirnar hafa verið „nauðsynlegt skref og eðlilegt viðbragð til að bregðast við samsæri Ísraelsmanna gegn palestínsku þjóðinni“.
Hryðjuverkamennirnir tóku 250 manns í gíslingu í árásinni. Ísraelsmenn segja að um 132 séu enn á Gasa, þar af sé talið að minnst 27 fangar hafi verið drepnir.
Ísrael svaraði hryðjuverkaárásinni með linnulausum sprengjuárásum og landhernaði sem hafa kostað að minnsta kosti 25.105 manns lífið á Gasa, aðallega konur og börn, að sögn heilbrigðisráðuneytisins á Gasa, sem er undir stjórn Hamas.
Hamas hvetja til þess að árásum Ísraelsmanna á Gasa verði hætt tafarlaust sem og „glæpum og þjóðernishreinsunum gegn öllum íbúum Gasa“. Hópurinn hafnaði öllum fyrirhöfnum annarra ríkja til að ákveða framtíð Gasa eftir stríð.
„Við leggjum áherslu á að palestínska þjóðin hafi getu til að ákveða framtíð sína og skipuleggja sín innanríkismál,“ sagði í yfirlýsingunni.
Þar segir að einnig „enginn í heiminum“ eigi rétt á að ákveða fyrir þeirra hönd.