Ísraelski herinn kveðst ekki geta staðfest dánarorsök þriggja ísraelskra gísla á Gasa. Móðir eins gíslanna hefur sakað Ísraelsher um að hafa eitrað fyrir honum í hernaðaraðgerðum.
Samkvæmt Jerusalem Post fluttu Ísraelar lík hermannanna Ron Sherman og Nik Beizer og fransk-ísraelska borgarans Elia Toledano úr jarðgöngum í Gasa þann 14. desember og sögðu upphaflega að gíslarnir hefðu verið drepnir af Hamas.
Móðir Ron Sherman, Maayan Sherman, hefur aftur á móti sakað herinn um að hafa eitrað fyrir syni sínum í færslu á Facebook-síðu sinni.
„Niðurstöður rannsóknarinnar: Ron var sannarlega myrtur,“ skrifar hún.
„Ekki af Hamas. Hugsið meira í áttina að Auschwitz og gasklefunum, en án nasista og án Hamas . Ekki skotárás fyrir slysni, engin skýrsla, morð að yfirlögðu ráði, sprengjuárásir með eitruðum gastegundum.“
Fer hún ekki fögrum orðum um ráðamenn í Ísrael og spyr hvort slíkt hefði hent syni þeirra.
„Hver væri ákvörðunin ef sonur Bibi [Benjamín Netanjahú] væri þarna í göngum hryðjuverkamanna eða barnabarn [Yoav] Gallant? Eða sonur Herzi Halevi? Hefði líka verið eitrað fyrir þeim með gassprengjum?“
„Ron var rænt vegna glæpsamlegrar vanrækslu allra háttsettra embættismanna hersins og fordæmdrar ríkisstjórnarinnar sem gaf skipun um að útrýma honum til að gera upp við einhvern hryðjuverkamann frá Jabalya.“
Segir hún fingur sonarins hafa verið kramda, vegna ítrekaðra og örvæntingarfullra tilrauna hans til að grafa sig út úr „eiturgröfinni“, sem Ísraelsher hafi grafið hann í.
Rannsókn Ísraelhers sýnir fram á að herinn hafi ekki vitað um viðurvist gísla á svæðinu. Hermenn hafi ráðist á jarðgöng nálægt þar sem lík gíslanna fundust og ráðið herforingja norðurhluta Gasa, Ahamad Al Ghandour, bana.
Samkvæmt yfirlýsingu sem Ísraelsher sendi frá sér sýnir skýrsla réttarmeinafræðings engin merki um meiðsli eða skotvopnaáverka á líkama gíslanna, sem staðfesti að þau hafi ekki látist af árásinni með beinum hætti.
„Vegna ástands líkanna er ekki hægt að ákvarða dánarorsök. Að svo stöddu er hvorki hægt að útiloka né staðfesta að gíslarnir hafi látist af völdum köfnunar, eitrunar eða vegna leifa af árás Ísraels eða aðgerða Hamas.“