„Tíminn er orðinn naumur“

Sænskar JAS Gripen- og norskar F-35-orrustuþotur fylgja bandarískri B-52-sprengjuflugvél yfir …
Sænskar JAS Gripen- og norskar F-35-orrustuþotur fylgja bandarískri B-52-sprengjuflugvél yfir Andøya í Norður-Noregi. Ljósmynd/Norski herinn

Norski herinn hefur ekki nema fáein ár til að byggja upp varnarmátt sem gerir hann í stakk búinn til að halda uppi vörnum landsins ráðist Rússar á það af fullu afli. Þetta segir Eirik Kristoffersen, æðsti yfirmaður norsks herafla, við fréttastofuna NTB.

„Núna höfum við tímaramma sem kannski endist okkur í eitt, tvö, jafnvel þrjú ár, en tíminn er orðinn naumur, ég vil bara leggja áherslu á það,“ segir herstjórinn, „við vitum ekkert hvernig Rússland verður eftir þrjú ár, við verðum að geta tekist á við óöruggan og ófyrirsjáanlegan heim með sterkum her landsins.“

Kristoffersen sótti ráðstefnu æðstu yfirmanna Atlantshafsbandalagsins NATO í Brussel í fyrra þar sem eitt helsta umræðuefnið var hvernig einstök ríki bandalagsins gætu búið sig sem best undir hugsanleg átök.

Hagkerfi á styrjaldarafköstum

Hann bendir meðal annars á að Rússar hafi byggt vopnabúr sitt upp mun hraðar en vænta mátti. Upp á síðkastið hafi rússneskt hagkerfi verið á styrjaldarstigi, vopnaverksmiðjur landsins framleitt allan sólarhringinn auk þess að stofna til samstarfs við Íran og Norður-Kóreu.

„Þetta táknar að Rússar styrkja hernaðarmátt sinn hraðar en við sáum bara í fyrra. Við verðum að nota tímann til að styrkja okkar eigin varnir,“ segir Kristoffersen.

Samtímis þessari þróun í Rússlandi moki önnur bandalagsríki hergögnum sínum til Úkraínu, gildi það um Noreg og önnur Evrópuríki. Þau séu fyrir vikið komin í vissa klípu. Gerir Kristoffersen þó ekki lítið úr stuðningnum við Úkraínu, mikilvægt sé að styðja Úkraínumenn með ráðum og dáð á meðan þeir þarfnist þess.

„Útlit er fyrir að það verði um hríð.“

Kristoffersen segir þarna um vissan áhættuþátt að ræða. „Stæði Noregur frammi fyrir því að ráðist yrði á landið alveg á næstunni hefðum við ekki getað látið öll þessi vopn frá okkur,“ segir hann en slær þó þann varnagla að vissulega gangi Úkraínustríðið einnig freklega á vopnabirgðir Rússa.

Eirik Kristoffersen tekur Norðmönnum allan vara á því að fljóta …
Eirik Kristoffersen tekur Norðmönnum allan vara á því að fljóta sofandi að feigðarósi, Rússar hafi sett hagkerfi sitt á styrjaldarstig og framleiði vopn allan sólarhringinn. Noregur verði að vera í stakk búinn til að verjast því að Pútín láti sverfa til stáls. Ljósmynd/Forsvarets Forum/Krister Sørbø

„Það held ég að Trump skilji“

Kristoffersen nefnir Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, sem einhverjir velta fyrir sér hvort náð gæti kjöri á ný í kosningum haustsins. Ekki er talið útilokað að Trump í Hvíta húsinu gæti haft í för með sér aukna áhættu fyrir Evrópu jafnt sem NATO.

Kveðst Kristoffersen ekki missa mikinn svefn yfir þeim möguleika. „Það sem Trump gagnrýndi fyrst og fremst var að Evrópuríkin verðu ekki nægu fé til varnarmála. Ástandið er hins vegar allt annað nú árið 2024 en það var 2016 eða 2020. Við verðum líka að hugsa til þess að sterkt NATO, í þeim heimi sem við nú lifum í, er hagur Bandaríkjamanna. Það held ég að Trump skilji,“ segir hann.

Rob Bauer, formaður hernaðarnefndar NATO, sagði við setningu NATO-ráðstefnunnar í Brussel að bandalagið yrði að vera í startholunum fyrir átök. Ítrekaði hann þessa skoðun sína á blaðamannafundi á föstudaginn.

Hnitmiðuð skilaboð

Aðspurður segir Kristoffersen þetta tákna að fylla þurfi áætlanir NATO innihaldi og tefla fram þeim möguleikum sem í boði séu.

„Bandalagið stendur nú frammi fyrir þeirri áskorun að gloppur eru í þessum áætlunum. [...] Það sem norska þjóðin þarf að huga að nú eru eigin varnir sem er það sem [Michael] Bydén [æðsti yfirmaður herafla Svíþjóðar] talaði einnig um. Við mælum með því að þriggja daga undirbúningur nægi. Og við mælum með því að styrkja það sem teljast veikleikar. Þetta eru hnitmiðuð skilaboð.“

Dagbladet
DagbladetII (Svíar verða að vera undir stríð búnir)
Document
ERR (eistneska ríkisútvarpið, á ensku)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert