Rússar lama sænsk tölvukerfi

Carl-Oskar Bohlin, ráðherra almannavarnamála í Svíþjóð, ræðir öryggismál á ráðstefnu …
Carl-Oskar Bohlin, ráðherra almannavarnamála í Svíþjóð, ræðir öryggismál á ráðstefnu í Salen 7. janúar. AFP

Þjónusta nokkurra sænskra ríkisstofnana og verslana á lýðnetinu hefur orðið fyrir truflunum vegna netárása sem Akira, rússneskur hópur tölvuþrjóta, eða hakkara sem svo kallast, er talinn standa á bak við. Frá þessu greindi finnsk-sænska netöryggisfyrirtækið Tietoevry í gær og lét þess enn fremur getið að margar vikur gæti tekið að koma netmálum fórnarlambanna í samt lag.

Þannig beindist árásin meðal annars að viðveruskráningarkerfi sænska ríkisins sem hafði þær afleiðingar að fjölda opinberra starfsmanna var ókleift að skrá yfirvinnutíma, veikindadaga eða óskir um frí.

Áhrif á rúmlega 60.000 starfsmenn

„Að teknu tilliti til eðlis atviksins og þess fjölda viðskiptamannakerfa sem koma þarf í gang á ný gæti vinnan við það tekið nokkra daga, jafnvel vikur,“ segir í tilkynningu sem Tietoevry sendi frá sér síðdegis í gær en Caroline Johansson Sjöwall, upplýsingafulltrúi Statens Servicecenter, sem heldur utan um mörg tölvukerfa hins opinbera, sagði AFP-fréttastofunni að 120 ríkisstofnanir hefðu orðið fyrir barðinu á hökkurunum og rúmlega 60.000 starfsmenn.

Hefur Tietoevry kært árásina til lögreglu vegna þess mikla fjárhagslega tjóns er af henni mun hljótast en hefur enn sem komið er ekkert tjáð sig um hvort liðsmenn Akira hafi sett fram lausnargjaldskröfu fyrir gögn sem stofnunum og fyrirtækjum er nú meinaður aðgangur að.

„Netöryggismál verða að vera á oddi hvers samfélags, hvort tveggja í opinbera og einkageiranum,“ skrifar Carl-Oskar Bohlin, ráðherra almannavarnamála í Svíþjóð, á samfélagsmiðilinn X auk þess að boða ítarlega rannsókn á atvikinu þegar tölvukerfin verða orðin starfhæf á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert