Rússar neita að hafa tekið úkraínsk börn með valdi

Alþjóðaglæpadómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, …
Alþjóðaglæpadómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í mars 2023. AFP

Rússar hafa komið þeim skilaboðum áleiðis til Sameinuðu þjóðanna að þeir hafni ásökunum Úkraínumanna og frjálsra félagasamtaka um að hafa tekið úkraínsk börn með valdi og flutt þau til Rússlands eftir að þeir réðust inn í Úkraínu i febrúar 2022.

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna innti stjórnvöld í Rússlandi eftir svörum um hversu mörg börn hafi verið flutt til Rússlands eða til rússneskra hertekinna hluta Úkraínu frá því innrásin hófst en Úkraínumenn áætla að 20 þúsund úkraínsk börn hafi verið flutt með valdi til Rússlands.

„Frá því í febrúar 2022 hefur Rússland ekki tekið þátt í brottvísun ríkisborgara á yfirráðasvæði Rússlands,“ segir Alexei Vovchenko, aðstoðarráðherra atvinnumála og félagslegrar verndar Rússlands, í svari til Sameinuðu þjóðanna.

Segja að aðeins 400 börn hafi skilað sér aftur heim

„Rúmlega þrjár milljónir íbúa Úkraínu, nokkur börn þeirra á meðal, voru teknar inn til Rússlands. Flest börnin komu með fjölskyldum sínum eða forráðamönnum. Þeim var komið fyrir í bráðabirgðaskýlum eða hjá ættingjum,“ segir Vovchenko enn fremur.

Úkraínumenn segja að af þeim börnum sem Rússar fluttu frá því innrásin var gerð hafi aðeins um 400 verið flutt aftur heim.

Alþjóðaglæpadómstóllinn gaf út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í mars 2023 vegna ákæru um stríðsglæpi með því að færa úkraínsk börn úr landi með ólögmætum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert