Sást í fyrsta sinn frá leyndu sjúkrahúsdvölinni

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á fundi í júní síðastliðnum.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, á fundi í júní síðastliðnum. AFP

Bandaríski varnarmálaráðherrann Lloyd Austin kom í fyrsta sinn fram opinberlega í dag eftir að hann var lagður inn á sjúkrahús vegna fylgikvilla í kjölfar krabbameinsmeðferðar.

Sjúkrahúsdvölinni leyndi hann forsetanum Joe Biden og Bandaríkjaþingi í nokkra daga og hélt ástæðu hennar leyndri enn lengur.

Öryggi alþjóðasamfélagsins undir

Austin ávarpaði fjarfund að heiman fyrr í dag, þar sem til umræðu var aðstoð við Úkraínumenn í vörn þeirra gegn innrásarliði Rússa.

„Öryggi alls alþjóðasamfélagsins er undir í baráttu Úkraínu. Ég er staðfastari en nokkru sinni fyrr í að vinna með bandamönnum okkar og samstarfsfélögum við að styðja Úkraínu og að klára verkið,“ sagði Austin.

Hann vakti athygli á 250 milljóna dala aðstoðarpakka sem stjórnvöld í Washington tilkynntu í síðasta mánuði, en greindi ekki frá neinni nýrri aðstoð frá Bandaríkjunum.

Repúblikanar á þingi hafa enda neitað að leyfa frekari aðstoð þar til Biden lætur undan kröfum þeirra um hertar varnir gegn innflutningi fólks yfir landamærin við Mexíkó.

Minniháttar aðgerð

Austin er 70 ára að aldri og gekkst undir minniháttar aðgerð við krabbameini í blöðruhálskirtli þann 22. desember. Sneri hann aftur heim til sín degi síðar en var svo lagður aftur inn á sjúkrahús vegna mikilla verkja og ógleði.

Hvíta húsið var ekki upplýst um innlögn Austins fyrr en 4. janúar. Þá var Biden ekki upplýstur um krabbameinsgreiningu ráðherrans fyrr en 9. janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert