Þvaglát, reykingar og ógnandi tilburðir

Áhafnir norska flugfélagsins Widerøe hafa mátt glíma við stóraukinn fjölda …
Áhafnir norska flugfélagsins Widerøe hafa mátt glíma við stóraukinn fjölda atvika þar sem farþegar kunna sig ekki um borð og gerast brotlegir við öryggisreglur og almenna mannasiði. Ljósmynd/Wikipedia.org/Valentin Hintikka

Þvaglát í farþegarými, reykingar og ógnandi tilburðir við áhöfn og aðra er meðal þess sem farþegar norskra flugfélaga gerðu sig seka um í miðju flugi á nýliðnu ári en tilkynntum tilfellum þar sem svokallaðir flugdólgar koma við sögu hefur fjölgað svo að nánast nemur tvöföldun, úr 293 árið 2022 í 560 í fyrra.

Þessar tölur hefur norska flugmálastofnunin Luftfartstilsynet tekið saman og kveður David Moldskred, eftirlitsmaður þar á bæ, þær vekja óhug.

Þannig fjölgaði slíkum atvikum um 53 prósent um borð í vélum flugfélagsins Widerøe frá 2019 til 2023 en óháð flugfélögum er vímuástand farþega orsök dólgsláta í tæplega 40 prósentum tilfella en streita og almennar ferðaupplifanir, eða generelle reiseopplevelser á norsku, sem stofnunin útskýrir ekki í þaula, eru einnig meðal þess sem plagar farþega og hefur knúið einhverja þeirra til athafna sem kostað geta háar sektir – jafnvel fangelsisdóm.

Setji sjálfa sig á flugstillingu

Þær tölur sem norska ríkisútvarpið NRK birtir koma, auk Widerøe, frá flugfélögunum SAS, Norwegian og Norse Atlantic Airways og segir Moldskred örðugt að benda á þær orsakir sem að baki liggi. Margir geri sér ef til vill í hug að áfengisneysla sé þar í efsta sæti.

„Fólk á að fylgja fyrirmælum áhafnarinnar og sameinast um að skapa jákvæða upplifun af fluginu, ég held að allir um borð græði á því,“ segir Moldskred og bendir á að flugfarþegar ættu að setja flugstillingu á fleira en farsíma sína – það er sjálfa sig einnig.

Catharina Solli er upplýsingafulltrúi Widerøe og telur hún ástæðu til að hafa áhyggjur af þróuninn en sem fyrr segir fjölgaði tilfellum í vélum félagsins um tugi prósenta á fjórum árum og um 28 prósent milli áranna 2022 og 2023.

„Þarna er oft um að ræða fólk sem neitar að hlýða öryggisreglum á borð við að festa sætisbelti eða er með uppsteyt um borð. Þetta er vandamál og nokkuð sem öll flugfélög vilja binda endi á,“ segir upplýsingafulltrúinn. Fyrir utan óþægindin sem dólgslæti í flugi skapi öðrum farþegum geta afleiðingarnar fyrir þann sem brýtur öryggisreglurnar orðið töluverðar.

Enginn dæmigerður dólgur

„Fólk hefur misst vinnuna vegna þess að því er bannað að ferðast með flugi. Slíkt hefur áhrif á einkalíf fólks,“ segir Solli og er spurð út í orsakir þessarar miklu fjölgunar tilfella. „Fólk flýgur orðið meira. Auk þess eru freistingarnar margar á flugvellinum, sumir drekka meira en skynsamlegt er og aðrir neyta annarra vímugjafa,“ segir hún.

Starfssystir hennar hjá Norwegian, Eline Hyggen Skari, kveður dólgslátum einnig fjölga þar um borð. „Öryggið er okkar forgangsmál. Allir farþegar eiga að njóta góðrar flugupplifunar hjá okkur en sú staða kemur upp að við þurfum að hafa afskipti af farþegum sem gerast sekir um háttsemi sem er öðrum farþegum og áhöfn óþægileg. Við reynum almennt að leysa málin með því að ræða við fólk, en reynist það ekki bera árgangur er lokaúrræði að kalla til lögreglu,“ segir upplýsingafulltrúinn.

Sameiginlegt átak flugfélaganna og fleiri aðila til að fækka óþægilegum uppákomum í flugi – þar sem viðstaddir eiga ekki svo auðvelt með að forða sér af vettvangi – stendur nú yfir og kemur flugvallarekstraraðilinn Avinor að því í samstarfi við stéttarfélög starfsfólks í fluggeiranum og lögreglu.

Moldskred hjá flugmálastofnun segir útilokað að lýsa hinum dæmigerða flugdólgi. Þeir sem misstígi sig um borð séu af báðum kynjum og á öllum aldri. Enginn áfangastaður virðist kalla fram ótilhlýðilega háttsemi fram yfir annan og leiðindaatvik í flugi segir hann koma upp jafnt á mánudagsmorgnum sem á laugardögum þegar fólk er á leið í frí eitthvað út í heim.

„Ef þú gerir eitthvað sem þú átt ekki að gera í flugi getur það orðið mjög dýrt,“ segir hann og bendir á að sektir séu háar fyrir dólgslætin og refsirammi í fangelsi þrjú ár.

Blóðslettur voru á sætum og stjórntækjum Dornier-vélarinnar eftir að hælisleitandi …
Blóðslettur voru á sætum og stjórntækjum Dornier-vélarinnar eftir að hælisleitandi frá Alsír lamdi flugstjóra og aðstoðarflugmann í höfuðið með öxi og hugðist steypa henni til jarðar með átta manns innanborðs. Ljósmynd/Norska lögreglan

Neyðarástand í Nordland

Farþegar flugs 605 með norðurnorska flugfélaginu Kato Air gleyma seint því atviki 29. september 2004 þegar maður vopnaður öxi gekk berserksgang í örsmárri Dornier 228-vél félagsins á leið frá Narvik til Bodø.

Var þar á ferð alsírskur hælisleitandi, Brahim Bouteraa, sem nýverið hafði fengið endanlega synjun yfirvalda um hæli í Noregi. Sex farþegar voru um borð og tveir flugmenn í opnum flugstjórnarklefa, engin öryggishurð lokaði þá af frá farþegarými vélarinnar.

Aðrir farþegar lýstu því síðar hvernig Bouteraa, sem var með mikið gel í hárinu, að sögn fimmtán ára vitnis, og klæddur hólkvíðum jakka að sögn föður vitnisins, gekk að flugstjórnarklefanum og dró fram litla öxi. Áður hafði hann setið í sæti sínu og lesið í bók í rauðri kápu sem sum vitnanna töldu Kóraninn en reyndist innihalda texta um íslamskan sið, „islamsk skikk“ eins og NRK orðaði það í uprifjun mörgum árum síðar.

Skiptir engum togum að maðurinn lýstur flugstjórann í höfuðið með vopni sínu og aðstoðarflugmanninn á eftir. Misstu mennirnir meðvitund í 1.200 metra hæð í aðflugi að flugvellinum í Bodø. Í farþegarýminu ríkti hrein skelfing.

Dornier 228-vélin var gjörónýt eftir lendinguna sem flugmennirnir höfðu aðeins …
Dornier 228-vélin var gjörónýt eftir lendinguna sem flugmennirnir höfðu aðeins sekúndur til að framkvæma eftir að tveir farþegar höfðu yfirbugað árásarmanninn í aðflugi að Bodø. Samsett mynd/Rannsóknarnefnd samgönguslysa/Havarikommisjonen

„Áður en ég yfirgef þennan óréttláta heim...“

Síðar kom í ljós að Bouteraa hafði sent tvenn SMS-skilaboð áður en hann lét til skarar skríða. Í annarri ánafnaði hann viðtakanda, einnig hælisleitanda í Noregi, eigur sínar en í öðrum skilaboðum ritaði hann: „Áður en ég yfirgef þennan óréttláta heim sem Bandaríkin hafa ægivald yfir vil ég segja: Farðu vel með þig.“

Bouteraa ætlaði sér ekki að ræna vélinni og reyna að komast til annars lands, öðru nær. Ásetningur hans stóð til þess að koma öllum um borð fyrir kattarnef – að sjálfum sér meðtöldum. Hann tróð sér á milli flugmannanna og þreif í stýrið sem hann þrýsti fram á við með þeim afleiðingum að Dornier-vélin tók djúpa dýfu og farþegar sáu hrikalega fjallstindana í nágrenni Bodø í Nordland-fylki nálgast með ógnarhraða.

Trond Frantzen er faðir fimmtán ára gömlu stúlkunnar, Marlene Føre Frantzen, en meðal annarra farþega var Odd Eriksen heitinn, fylkisþingmaður í Nordland og síðar viðskiptaráðherra í annarri ríkisstjórn Jens Stoltenbergs. Þeir Frantzen áttu eftir að bjarga mörgum mannslífum þennan septemberdag árið 2004. Frantzen lýsti hugsunum sínum í viðtali við NRK árið 2014, tíu árum eftir atburðinn.

„Ég sá fjallstindana og fjörðinn fyrir neðan. Ég spurði sjálfan mig hvort ég gæti stokkið út úr flugvélinni. Það var auðvitað engin leið,“ rifjaði hann upp.

Límdist við loftið í þyngdarleysi

Bouteraa hafði einhverja þekkingu á stjórntækjum flugvéla og slökkti á sendi vélarinnar með þeim afleiðingum að hún hvarf af ratsjá. Gagnvart flugumferðarstjórn í Bodø varð vélin ósýnileg. Hún var horfin rétt fyrir lendingu.

„Flugvélin sviptist til og frá, upp og niður og til hliðanna. Fólk æpti af skelfingu. Eriksen var að reyna að koma manninum út úr stjórnklefanum. Ég sá að hann átti í erfiðleikum og kom manninum ekki burt.“

Marlene dóttir hans sagði síðar við NRK að hún hefði öskrað á föður sinn „pabbi pabbi, farðu og taktu hann!“

Faðir hennar leit út um gluggann og sá yfirborð jarðar snúast þar í hringi og færast sífellt nær. „Ég var farinn að búa mig undir að þetta færi illa. Þú kemur að þeim tímapunkti þegar þú lokar augunum og hugsar um hvað gerist þegar þú deyrð,“ sagði Frantzen.

Dornier-vélin hífð upp af flugbrautinni í Bodø eftir atvik sem …
Dornier-vélin hífð upp af flugbrautinni í Bodø eftir atvik sem kostað hefði átta manns lífið ef ekki hefði verið fyrir snarræði Trond Frantzen og Odd Eriksen, síðar viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jens Stoltenberg. Ljósmynd/Fredrik Solstad

Skósólarnir í loftið

Hann kom sér þó úr sæti sínu og gekk í átt að fylkisþingmanninum sem átti í átökum við hælisleitandann. Tók vélin þá slíka dýfu að Frantzen skall upp í loft farþegarýmisins og sat fastur þar í þyngdarleysi í það sem honum virtust vera nokkrar sekúndur. Hann féll svo niður á gólf aftur og komst þá til Eriksen, ruddi sér leið fram hjá honum og tók Bouteraa hálstaki aftan frá.

Varð farþegarými vélarinnar þá þyngdarlaust í annarri dýfu og skósólar Frantzens límdust við loftið á meðan hann hélt hálstaki sínu á Bouteraa sem ríghélt í stýri vélarinnar og dró það að sér vegna átaksins frá Frantzen. Við það náði þyngdarafl jarðar taki á vélinni á ný og Frantzen og Bouteraa köstuðust aftur á bak og skullu í gólfið. Lenti Frantzen ofan á árásarmanninum.

Dornier-vélin hækkaði þá flugið nær lóðrétt og stóð á tímabili nánast kyrr í loftinu – í aðeins 300 metra hæð yfir jörðu örskammt frá flugvellinum í Bodø. Eriksen fylkisþingmaður hafði þá náð áttum og kastaði sér á fætur Bouteraa og saman ríghéldu þeir Frantzen axarmanninum sem var ekki fjarri því að myrða alla sem um borð voru í vél Kato Air þennan haustdag árið 2004.

Ekki hugmynd um hvað gerst hafði

Flugmennirnir voru, er þarna var komið sögu, komnir til meðvitundar en Bouteraa hafði slegið þá með bakka axarhaussins, ekki hvassri egginni sem auðveldlega hefði getað fyrirkomið þeim báðum.

Tíminn til stefnu var ekki nema nokkrar sekúndur og Dornier-vélin gjöreyðilagðist þegar hún skall á flugbrautinni í Bodø. Lögreglu-, slökkviliðs- og sjúkrabifreiðar óku í loftköstum að vélinni. Enginn þeirra viðbragðsaðila hafði hugmynd um að blóðug átök sem skildu milli feigs og ófeigs hefðu átt sér stað síðustu mínúturnar í aðfluginu að Bodø. Þeir vissu bara að vélin hefði horfið af ratsjá.

Síðasti maður til að yfirgefa flak vélarinnar var Trond Frantzen. Þeir Eriksen hlutu síðar Polaris-verðlaunin frá Alþjóðasamtökum flugmanna, þeir fyrstu til að hljóta þau án þess að vera flugmenn, en flugmenn flugs 605, þeir Kristian Markus Andresen aðstoðarflugmaður og Stein Magne Lian flugstjóri, voru sæmdir sömu verðlaunum. Var þetta í fyrsta sinn sem Norðmenn voru sæmdir Polaris-verðlaununum.

Eriksen var enn fremur valinn Norðlendingur ársins 2004, Lian fékk nafnbótina nafn ársins hjá dagblaðinu VG og allir fjórir hlutu Carnegie-hetjuverðlaunin árið 2005.

Brahim Bouteraa hlaut sautján ára fangelsisdóm í héraði sem lögmannsréttur mildaði í fimmtán ár. Var honum gert að afplána dóminn í landinu sem hann ætlaði sér að forðast til dauðadags með því að fá hæli í Noregi – Alsír.

NRK
NRKII (árásin í flugi 605)
ABC Nyheter (KLM vill sameiginlegan svartan lista)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert