Kveður upp úrskurð í máli Ísraels á föstudag

Lögmaður Ísraels, Tal Becker, við réttarhöldin í Haag fyrr í …
Lögmaður Ísraels, Tal Becker, við réttarhöldin í Haag fyrr í janúar. AFP

Alþjóðadómstóllinn í Haag mun kveða upp úrskurð sinn í máli Suður-Afríku á hendur Ísrael á föstudag. 

Yfirvöld í Suður-Afríku sökuðu fyrr í mánuðinum Ísrael um að brjóta gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þjóðarmorð og skutu málinu í kjölfarið til dómstólsins.

Sáttmálinn sem yfirvöld í Suður-Afríku saka Ísrael um að hafa brotið gegn á rætur sínar að rekja til ársins 1948 og kom til í kjölfar helfararinnar. 

Gæti fyrirskipað enda á átökin 

Dómstóllinn gæti fyrirskipað Ísrael að binda enda á átökin á Gasa, en yfirvöld í Suður-Afríku krefjast þess að dómstóllinn grípi til sérstakrar neyðarskipunar í þágu Palestínumanna á Gasa.

Ekki er hægt að áfrýja skipunum frá dómstólnum í Haag, enda æðsta dómsvaldið í málum sem þessum. 

Getur ekki framfylgt skipununum 

Aftur á móti hefur dómstóllinn engar leiðir til þess að framfylgja skipunum sínum. Til að mynda skipaði dómstóllinn Rússlandi að binda enda á stríð sitt gegn Úkraínu mánuði eftir að átökin þar hófust, án árangurs. 

Forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú, hefur þegar ýjað að því að úrskurður dómstólsins hefði engin áhrif. 

„Enginn mun stöðva okkur – ekki dómstóllinn í Haag, ekki öxull illskunnar og enginn annar heldur,“ sagði hann þann 14. janúar.

Frá Alþjóðadómstólnum í Haag 12. janúar.
Frá Alþjóðadómstólnum í Haag 12. janúar. AFP

Mun ekki taka afstöðu til þjóðarmorðs

Dómstóllinn kveður einungis upp úr um beiðni Suður-Afríku um þessa tilteknu neyðarskipun í þágu Palestínumanna á Gasa, sem grípa má til við brot á sáttmálanum um þjóðarmorð.

Hann mun þá ekki taka afstöðu um hvort Ísraelsríki gerist sekt um þjóðarmorð. Afstaða í þeim efnum tæki dómstólinn fleiri ár.  

Þrátt fyrir að dómstóllinn geti ekki framfylgt skipunum sínum, þá gæti úrskurður gegn Ísrael haft aðrar afleiðingar og orðið til að hvetja til pólitískra aðgerða, þar á meðal viðskiptaþvingana. 

Síðustu vikurnar til sönnunar

Bæði ríkin skrifuðu undir sáttmálann á sínum tíma og fyrir vikið hefur Suður-Afríka tök á því að draga Ísrael fyrir dóm.

Málflutningsmenn Suður-Afríku sögðu frammi fyrir dómstólnum að ríkið gerði sér grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem felst í kæru þeirra á hendur Ísrael. 

Þá sögðu þeir að árásir Ísraels hefðu það markmið eitt að „stefna að gjöreyðingu Palestínu“ og fólk sé á „barmi hungursneyðar“ vegna árásanna.

„Enginn lýsir yfir þjóðarmorði fyrir fram, en þessi dómstóll hefur síðustu þrettán vikurnar sér til sönnunar og háttsemi og atferli sem gefur vísan að mögulegri þjóðarmorðssök,“ sagði lögmaður Suður-Afríku, Adila Hassim.

Fulltrúar Suður-Afríku við réttarhöldin í Haag.
Fulltrúar Suður-Afríku við réttarhöldin í Haag. AFP

Varnarstríð

Málflutningsmenn Ísrael höfnuðu því að ríkið stefndi að gjöreyðingu Palestínu og sagði Suður-Afríku ekki mála rétta mynd af málinu. 

„Ísrael er að heyja varnarstríð gegn Hamas, ekki gegn íbúum Palestínu,“ sagði lögmaður Ísraels, Tal Becker. 

Ríki víðs vegar um heiminn hafi tekið sér afstöðu með og á móti kæru Suður-Afríku.

Bandaríkin hafa þegar hafnað málflutningi Suður-Afríku og tekið sér stöðu með Ísrael. 

Þýskaland hefur tekið sér stöðu með Ísrael, sem vakti andmæli frá fyrrum nýlendunni Namibíu sem lýsti kæru Suður-Afríku sem siðferðislegri og heiðarlegri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka