Þingmenn í Oregon-ríki hafa boðað nýtt frumvarp sem myndi gera vörslu lítils magns fíkniefna aftur að minniháttar afbroti. Oregon var fyrsti ríki Bandaríkjanna til að afglæpavæða fíkniefni og glímir nú við gríðarlega mikla fjölgun á fjölda dauðsfalla vegna fíkniefna.
The Associated Press (AP) greinir frá.
Almenningsálitið hefur súrnað verulega gagnvart afglæpavæðingu neysluskammta vegna mikillar neyslu fíkniefna á almannafæri sem og aukninna glæpa í borginni.
Frumvarpið, sem er lagt fram af demókrötum á ríkisþinginu, myndi fella fyrri lög úr gildi og refsa fyrir vörslu á litlu magni af fíkniefnum. Myndi frumvarpið einnig gera lögreglu kleift að gera þau upptæk og brjóta á bak notkun fíkniefna á almannafæri.
Frumvarpið miðar líka að því að gera það auðveldara að sækja til saka sölumenn fíkniefna, auðvelda aðgang fíkla að lyfjum í fíkniefnameðferð og leyfa þeim að fá og halda húsnæði án þess að verða fyrir mismunun vegna notkunar þeirra lyfja.
„Þetta er málamiðlunarleiðin, en líka besta stefnan sem við getum komið með til að tryggja að við höldum áfram að halda samfélögum öruggum og bjarga mannslífum,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn Kate Lieber, demókrati í borginni Portland, við AP.
Kjósendur samþykktu lög um algjöra afglæpavæðingu með 58% fylgi árið 2020. En kjörnir fulltrúar sem töluðu fyrir afglæpavæðingu sem leið til að meðhöndla fíkn sem lýðheilsumál, ekki glæp, glíma nú við eina mestu fjölgun á dauðsföllum af völdum of stórra skammta í Bandaríkjunum.
Fræðimenn segja of snemmt að segja til um það hvort að fjölgunina sé hægt að rekja til frjálslyndari fíkniefnalöggjafar.
Ef þetta frumvarp verður að lögum, sem telst líklegt þar sem demókratar eru í meirihluta, þá fær fólk tækifæri til að sleppa við lögsókn með því að hitta meðferðarfulltrúa.
Repúblikanar á þinginu segja frumvarpið þó ekki ganga nógu langt til að glíma við risavaxið fíkniefnavandamál fólks í ríkinu. Stéttarfélög lögreglumanna og saksóknara hafa einnig tekið undir það sjónarmið.