20 milljarða högg fyrir Alaska Airlines

737 Max 9-þota frá Alaska Airlines.
737 Max 9-þota frá Alaska Airlines. AFP

Flugfélagið Alaska Airlines greindi frá því í dag að það byggist við 150 milljóna dala fjárhagslegu höggi, sem jafngildir um 20 milljörðum kr., í kjölfar atviks sem varð fyrr í þessum mánuði þegar hleri í farþegarými Boeing 737 Max 9 gaf sig þegar vélin var nýlega farin í loftið.

Vélin þurfti að nauðlenda en 177 farþegar voru um borð auk áhafnar og sakaði engan. Forráðamenn Alaska Airlines segja að draga þurfi úr umsvifum flugfélagsins á þessu ári.

Bandarísk flugmálayfirvöld ákváðu í kjölfarið að kyrrsetja 170 Boeing 737 Max 9-vélar svo hægt væri að skoða þær en vél Alaska Airlines er af sömu gerð. Í gær gáfu flugmálayfirvöld grænt ljós á að hægt væri að taka vélarnar aftur í notkun.

Alaska Airlines, sem er með 65 flugvélar sem urðu fyrir áhrifum af kyrrsetningunni, býst við að koma fyrstu flugvélinni aftur í notkun frá og með morgundeginum og að skoðunum á öllum vélum flugfélagsins verði lokið í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert