Norsk drulla ógnar dönskum bæ

Heldur óþrifalegt er um að litast á athafnasvæði Nordic Waste …
Heldur óþrifalegt er um að litast á athafnasvæði Nordic Waste sem í ofanálag varð gjaldþrota í vikunni. Ljósmynd/Sveitarfélagið Randers

Hálf milljón tonna af norskum jarðvegi ógnar nú danska smábænum Ølst, suður af Randers á Jótlandi, í kjölfar þess er margra milljóna rúmmetra jarðvegsmassi í nágrenni við jarðvegshreinsunarstöðina Nordic Waste tók að skríða hægt fram skömmu fyrir jól.

Óttast dönsk stjórnvöld nú að þessi hæga en ógnarþunga aurskriða muni grafa Ølst með manni og mús áður en hún rennur út í bæjarána Alling en skriðan á ekki mikið meira en nokkur hundruð metra eftir að þeim húsum Ølst er næst standa. Hér má sjá myndskeið sem sýnir fjarlægð bæjarins frá starfsstöðvum Nordic Waste og skriðunni.

Norska ríkisútvarpið fjallar um málið og getur staðfest að fyrrgreint magn, tæp hálf milljón tonna, af aurskriðunni reki uppruna sinn til Vestur-Noregs. Jarðveg þennan, sem mengaður er ýmsum efnum úr stóriðnaði, hafa flutningaskip fært frá Noregi til hreinsunar í Danmörku en frá Nordic Waste fer hreinsaður jarðvegurinn svo áfram í sölu til fyrirtækja í byggingar- og jarðvinnuframkvæmdum sem fyllingarefni.

Sá galli er þó á gjöf Njarðar að fyrir utan að hafa misst alla stjórn á hreinsun þess magns sem kemur inn – og aðeins náð að hreinsa og senda áfram um fimm prósent – varð Nordic Waste gjaldþrota nú í vikunni.

Fá ekki rönd við reist

Árið 2018 hlaut fyrirtækið vottun og leyfi danskra yfirvalda til að taka við menguðum jarðvegi og hreinsa hann fyrir frekari notkun. Síðan hefur fyrirtækið, ef marka má bókhald sveitarfélagsins Randers, fengið til sín 3,8 milljónir tonna af jarðvegi sem hvorki gengur né rekur að vinna úr.

Frá þessu greindi danska útvarpsstöðin Radio4 á mánudaginn og enn fremur því að eftir að stjórnendur Nordic Waste áttuðu sig á að þeir fengju ekki rönd við reist gegn aurskriðunni hefðu þeir kallað eftir aðstoð Randers sem vikum saman hefur gert út stórar vörubifreiðar til að flytja jarðveg úr skriðunni og stöðva framgang hennar þannig. Þetta hefur ekki gengið sem skyldi og bera íbúar Ølst nú kvíðboga fyrir því er koma skal.

Smábærinn Ølst er á Jótlandi, rétt við Randers og skammt …
Smábærinn Ølst er á Jótlandi, rétt við Randers og skammt frá Árósum. Skjáskot/Kortavefur Google

Ofan á allt saman hafa svo risið deilur um hver skuli fá reikninginn fyrir öllu klúðrinu. Greinir sjónvarpsstöðin TV2 Østjylland frá því að fjöldi skipsfarma af jarðvegi komi frá dönsku höfuðborginni Kaupmannahöfn auk hinnar norsku Björgvinjar. Norska endurvinnslufyrirtækið Envir AS samdi við Nordic Waste árið 2020 um að taka á móti norskum jarðvegi og fékk útgefið útflutningsleyfi norskra stjórnvalda til framkvæmdarinnar.

Ákaflega sorglegt

„Um 80 prósent þess jarðvegs sem við höfum tekið á móti í starfsstöð okkar í Laksevåg höfum við sent til Danmerkur,“ segir Kolbjørn Akervold, framkvæmdastjóri Envir, í samtali við NRK sem þykir málið skelfilegt. „Þetta eru líklega um 400.000 tonn sem við höfum sent, lítið mengaður jarðvegur og ekki hættulegur. Þetta er ákaflega sorglegt, hvort tveggja fyrir samfélagið þarna niður frá og starfsfólk fyrirtækisins [Nordic Waste],“ segir Akervold.

Samkvæmt upplýsingum NRK frá norska umhverfisráðuneytinu fóru sautján skipsfarmar með samtals rúmlega 60.000 tonn af jarðvegi frá Laksevåg tilRanders árið 2020 og var þar einkum um að ræða úrgang frá byggingar- og vegaframkvæmdum í Vestland-fylki.

Danski umhverfisráðherrann Magnus Heunicke lýsir ástandinu sem grafalvarlegu í viðtali við danska ríkisútvarpið DR en danska verkfræði- og ráðgjafarfyrirtækið COWI spáir í skýrslu sinni um aurskriðuna að margra ára vinnu þurfi til að koma svæðinu í samt lag og stöðva aurskriðuna. Verðmiðinn á öllu saman nálgist 2,2 milljarða danskra króna sem jafnast á við 44 milljarða íslenskra.

Fór níu metra á dag

Enn ískyggilegri er spá COWI um örlög Ølst sem grafist gæti undir fimm metra þykku lagi af votkenndri jarðvegsdrullu en allur þessi jarðmassi seig í síðustu viku átt að bænum með níu metra hraða á sólarhring. Hann hefur þó hægt á sér nú, að sögn Carsten Steen Sørensen, sérfræðings hjá COWI, sem tjáði DR á mánudaginn að hraðinn þá hefði verið kominn niður í tvo metra á sólarhring. Kvað hann íbúa Ølst því enn um sinn geta sofið um nætur.

Sýni úr jarðveginum sem tekin voru fyrir jól sýna að hann innihélt þá umtalsvert magn þungmálma en gildi þeirra hafa lækkað nokkuð síðan. Engu að síður er innihald þungmálma í jarðveginum vel yfir heilsuverndarmörkum að sögn DR.

NRK

Børsen

DR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka