Rúmlega 50 börn í gæsluvarðhaldi

Fangavörður í Kronoberg, stærsta gæsluvarðhaldsfangelsi Svíþjóðar, snýr lykli sínum í …
Fangavörður í Kronoberg, stærsta gæsluvarðhaldsfangelsi Svíþjóðar, snýr lykli sínum í læsingarbúnaði fangaklefa. Skortur er á slíkum rýmum um alla Svíþjóð og þau yfirfull. Skjáskot/Fréttatími SVT

Gæsluvarðhaldsrými sænsku höfuðborgarinnar Stokkhólms eru á þrotum vegna þess mikla fjölda grunaðra afbrotamanna sem hlotið hafa gæsluvarðhaldsúrskurði upp á síðkastið.

Frá þessu greinir sænska ríkisútvarpið SVT og hefur það eftir stjórnendum gæsluvarðhaldsfangelsa að gæsluvarðhaldsfangar deili klefum vegna plássleysis.

Einn þessara stjórnenda er Anna Fromm sem stendur við stjórnvöl gæsluvarðhaldsfangelsisins á Kungsholmen.

„Við höfum aldrei haft svona marga fanga í gæsluvarðhaldi,“ segir Fromm við SVT. Hjá henni eru gæsluvarðhaldsrýmin 276 en þeir sem þau gista hafa gjarnan verið fleiri í því styrjaldarástandi sem ríkt hefur milli Foxtrot og annarra glæpagengja í Stokkhólmi og nágrenni.

Nýting gæsluvarðhaldsrýma 119 prósent

Einn dag í nóvember sátu til að mynda 308 gæsluvarðhaldsfangar á Kungsholmen og sömu sögu er að segja af sambærilegum stofnunum í Huddinge og Sollentuna. Um þessar mundir sitja rúmlega 50 börn, fimmtán til sautján ára, í gæsluvarðhaldsfangelsunum þremur og hafa þurft að deila klefum með gamalreyndum og mun eldri afbrotamönnum.

Vandamálið er ekki bundið við Stokkhólm og nágrenni, langt í frá. Ef marka má tölur frá sænsku fangelsismálastofnuninni er nýting gæsluvarðhaldsrýma nú 119 prósent og hafa lögregluumdæmi víða um land brugðið á það ráð að hýsa gæsluvarðhaldsfanga í venjulegum fangageymslum sem ætlaðar eru til skammtímavistunar með þeim afleiðingum að sleppa hefur þurft þeim, sem þar sátu fyrir, úr haldi.

„Við tvíbókum mörg rými og notum rými sem ætluð eru til annars konar vistunar undir gæsluvarðhaldsfanga, svo sem einangrunarklefa og sjúkraklefa,“ segir Christoffer Livebrant, fangelsisstjóri Sollentuna-fangelsisins, við SVT en hjá honum sitja nú 300 manns í gæsluvarðhaldi.

Dómínóáhrif í klefunum

Slær ríkisútvarpið þeirri tölfræði fram að nú sitji 90 gæsluvarðhaldsfangar í Svíþjóð allri í venjulegum fangaklefum ætluðum til að skammtímavista handtekna einstaklinga sem annaðhvort sofa úr sér vímu eða bíða þess að verða leiddir fyrir dómara til úrskurðar um gæsluvarðhaldsvist. Þannig hafi ástandið verið mánuðum saman að sögn Livebrants og talar hann þar um dómínóáhrif.

Þegar venjuleg afplánunarfangelsi yfirfyllist afpláni fjöldi fanga í gæsluvarðhaldsklefum sem svo skapi plássvandamál þegar margir gæsluvarðhaldsúrskurðir séu kveðnir upp og þörf verði á rýmunum fyrir þá skjólstæðinga refsivörslukerfisins.

Heimildarmaður innan lögreglunnar sem ræðir við SVT segir að í fangageymslum Stokkhólms ríki hreinn glundroði, til að mynda hafi lögregla neyðst til að sleppa þremur þjófum lausum eftir handtöku þrátt fyrir að til hefði staðið að vista þá í fangageymslu. Þar var hins vegar ekkert pláss vegna gæsluvarðhaldsfanga sem þar voru á fleti fyrir.

Lögreglan viðurkennir vandann í tölvupósti til SVT og kveður viðræður við fangelsismálastofnun nú standa yfir með lausn á plássleysi sænskra fangelsa fyrir augum.

SVT
SVTII (yfirfullir klefar)
SVTIII (52 ný gæsluvarðhaldsrými í Trångsund)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert