Selenskí um slysið: Rússar leiki sér með líf Úkraínumanna

Selenskí í ávarpi að kvöldi miðvikudags.
Selenskí í ávarpi að kvöldi miðvikudags. AFP/Alessandro Della

Yfirvöld í Rússlandi hafa sagt Úkraínu bera ábyrgð á árásinni sem varð til þess að herflugvél fórst í Belgórod-héraði í gærmorgun, miðvikudag.

Vélin var að sögn Rússa að ferja 65 úkraínska fanga og brotlenti með þeim afleiðingum að 74 manns létu lífið og þar af allir 65 fangarnir.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur nú tjáð sig um málið og segir yfirvöld í Rússlandi „leika sér að úkraínskum föngum“.

Hafnar ekki ásökunum

„Það liggur í augum uppi að Rússar eru að leika sér að lífum úkraínskra fanga og tilfinningum ættingja þeirra og samfélagsins,“ sagði Selenskí.

Þá staðfesti hann hvorki né hafnaði því sem Rússar hafa haldið fram, en sagði daginn hafa verið „mjög erfiðan“.

„Við þurfum að vera með allt á hreinu. Sérstaklega þegar litið er til þess að flugvélin var skotin niður innan landamæra Rússlands, sem er utan okkar áhrifasviðs,“ sagði hann enn fremur og kallaði eftir alþjóðlegri rannsókn á málinu. 

Héldu loftárásum áfram þrátt fyrir fangaskipti

Yfirvöld í Rússlandi sögðu að Úkraína bæri ábyrgð á slysinu og sögðu það hryðjuverk.

Ýmsar stofnanir innan Úkraínu hafa viðurkennt að fangaskipti ættu að eiga sér stað og að á sama tíma hafi Úkraína haldið úti loftárásum í Belgórod-héraði, þar sem flugvélin brotlenti. 

Yfirvöld í Úkraínu hafa þó enn sem komið er ekki staðfest hvort að úkraínskir fangar hafi látið lífið í slysinu, þó svo að yfirvöld í Rússlandi segi það.

Selenskí hefur fyrirskipað rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert