Ástralía og Kanada hafa fryst fjárveitingar til stofnunar á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem aðstoðar palestínska flóttamenn.
Löndin fylgja fordæmi Bandaríkjanna sem frysti fjárveitingar til stofnunarinnar í gær eftir að grunur vaknaði um að einhverjir starfsmenn stofnunarinnar hafi átt þátt í árás Hamas á Ísrael 7. október síðastliðinn.
Utanríkisráðherra Ástralíu, Penny Wong, sagði í gær að grunsemdirnar væru verulegt áhyggjuefni og að verið væri að ræða málin innbyrðis um hvort frysta ætti fjárveitingar til samtakanna.
Þá hrósaði hún stofnuninni fyrir skjót viðbrögð og fyrir að hafa sagt upp þeim starfsmönnum sem liggja undir grun.
Ahmed Hussen, ráðherra í ríkisstjórn Kanada sem fer fyrir alþjóðaþróun landsins, segir Kanada taka þessum ásökunum af mikilli alvöru og gerir ráð fyrir því að stofnun Sameinuðu þjóðanna muni bregðast við með viðeigandi hætti, skyldi grunurinn vera á rökum reistur.
Yfirmaður stofnunarinnar, Philippe Lazzarini, hefur lofað aðgerðum og að draga hina ábyrgu fyrir dóm.
Þá lofaði framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres, að framkvæma áríðandi og yfirgripsmikla rannsókn á vegum óháðra aðila.