Skotin til bana með barnabarnið sér við hlið

Hala Khreis mætti örlögum sínum á flótta undan sprengjugný og …
Hala Khreis mætti örlögum sínum á flótta undan sprengjugný og eyðileggingu í al-Rimal-hverfinu 12. nóvember og leiddi þá ömmubarnið Tayem sér við hlið. Ljósmynd/Úr einkasafni

„Móðir mín hefði orðið 58 ára 30. desember og hélt í hönd barnabarnsins síns. Hvers vegna að skjóta hana?“ spyr Sara Khreis, átján ára gömul palestínsk kona sem horfði upp á móður sína skotna til bana þar sem hún leiddi fjögurra ára gamlan dreng, ömmubarnið, sér við hlið á flótta undan vopnuðum átökum í al-Rimal-hverfinu í Gasaborg 12. nóvember.

Þennan dag, sem Sara gleymir ekki á meðan hún lifir eins og hún játar í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN, ákvað fjölskylda hennar að forða sér ásamt fleirum. Höfðu ísraelskir skriðdrekar ekið inn í hverfið nokkrum dögum áður, árásardrónar svifu yfir byggðinni og sprengjugnýrinn var ærandi.

Fjölskyldan óttaðist að heimilið yrði að glóandi eldhafi á hverri stundu og sá að lokum sæng sína upp reidda eftir að sprengingarnar keyrðu um þverbak tvær nætur í röð.

Þau voru um tuttugu sem lögðu af stað í hóp, fjölskylda Söru ásamt nágrannafólki. Móðir hennar, Hala, var ákaflega ósérhlífin kona sem setti eigin hag aftar annarra. Að morgni 12. nóvember útbjó hún morgunverð handa viðstöddum áður en þau heyrðu hróp nágranna sinna fyrir utan sem hvöttu fjölskylduna til að flýta sér.

Sara Khreis minnist móður sinnar með hlýju og kveðst hafa …
Sara Khreis minnist móður sinnar með hlýju og kveðst hafa leitað til hennar um alla hluti, smáa sem stóra, og þegið hennar ráð í hvívetna. Ljósmynd/Úr einkasafni

Forðaði sér dauðskelfdur

Þau fóru í skóna og yfirgáfu heimili sitt, móðir Söru fremst í flokki og leiddi drenginn unga, Tayem, við hlið sér. Hann hélt á hvítri dulu, hinu alþjóðlega tákni uppgjafar í styrjöldum, og slíkt báru fleiri í hópnum og töldu sig þar með auðkennda sem almenna borgara sem færu með friði.

Hópurinn hafði ekki farið langt þegar skothvellur kvað við og Hala féll í jörðina.

Tayem litli forðaði sér dauðskelfdur í faðm næsta samferðafólks en af atvikinu náðist myndskeið.

Myndskeiðið, umfjöllun CNN og viðtalið við Söru má sjá hér:

Fátt um svör

Myndskeiðið, sem sýnir síðustu sekúndurnar í lífi Hala Khreis, er eitt margra sem farið hafa í dreifingu undanfarið og sýna óvopnaða almenna borgara skotna til bana á Gasasvæðinu og má sem dæmi nefna að mannúðarsamtökin Euro-Med Human Rights Monitor í Genf í Sviss hafa níu slík atvik til rannsóknar.

Hafa fréttamenn CNN tekið fjögur atvik til athugunar, þar á meðal það sem hér segir af.

Þrátt fyrir fjölda tilrauna CNN til að fá skýr svör frá ísraelskum hermálayfirvöldum hefur fátt verið um svör þaðan og aðeins ítrekað að málið sé „í rannsókn“. Það hafa þau hins vegar ekki sagt um fjölda annarra mála.

Börnin segja það lán í óláni að myndskeiðið af síðustu …
Börnin segja það lán í óláni að myndskeiðið af síðustu sekúndum móður þeirra hafi verið tekið, það geti hugsanlega varpað ljósi á atburði þegar málið verði rannsakað. Óttast þau þó að fjölda spurninga á þeim vettvangi verði aldrei svarað. Ljósmynd/Úr einkasafni

Myrt með köldu blóði

Börn móðurinnar látnu ræða við CNN, stödd á Gasasvæðinu og í Tyrklandi, og segja það lán í skelfilegu óláni að myndskeiðið af vígi hennar sé þó til þar sem það geti síðar orðið mikilvægt sönnunargagn þegar sá dagur rennur að málið verði rannsakað.

Á hinn bóginn þröngvi tilvist myndskeiðsins þeim til þess að upplifa atburðinn aftur og aftur á meðan þau leita vísbendinga og svara við spurningum sem þau óttast að aldrei finnist.

Fjölskyldan fullyrðir að Hala hafi verið myrt með köldu blóði þrátt fyrir loforð Ísraelshers um að leyfa almennum borgurum að ganga óáreittum á brott. Þessu hafa talsmenn Ísraelshers ekki svarað fremur en öðru.

Ísraelskir skriðdrekar og fótgönguhermenn

Þó sýna gervihnattamyndir, og aðrar myndir teknar á jörðu niðri, að ísraelskir fótgönguhermenn voru staddir í hverfinu, þar á meðal í skólabyggingu 200 metra frá þeim stað þar sem Hala mætti örlögum sínum. Þá segir fjölskyldan ísraelska skriðdreka hafa staðið á veginum fram undan og verið þannig staðsetta að flóttamannahópurinn úr hverfinu, sem gekk í suðurátt, nálgaðist þá.

Khreis-fjölskyldan kveðst hafa fengið þær upplýsingar að Alþjóðarauðakrossnefndin hefði búið svo um hnútana að flóttaleið til suðurs væri opin. Þegar flóttinn var nýhafinn bárust hins vegar boð um að þetta hefði breyst – leiðin lægi nú í austurátt. Hala Khreis og Tayem voru hins vegar komin töluvert fram úr hópnum og köll til þeirra um að breyta um stefnu náðu aldrei eyrum þeirra.

„Móðir mín var líf mitt, hún var vinur minn og hún var mér allt,“ segir Sara við CNN, „ég gerði ekkert án þess að ráðgast við hana eða fá hennar álit. Hún fylgdi mér hvert fótmál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka