Þrír bandarískir hermenn féllu í drónaárás á herstöð Bandaríkjamanna í Jórdaníu í nótt, að sögn hersins.
Þetta er fyrsta sinn sem bandarískir hermenn falla í Mið-Austurlöndum frá því að stríðið á Gasaströndinni hófst í október.
Til viðbótar særðust 25 í árásinni, sem var gerð í norðaustanverðri Jórdaníu, nálægt landamærum að Sýrlandi, samkvæmt tilkynningu frá aðgerðastjórnstöð Bandaríkjahers.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lofað hefndaraðgerðum en hann segir að árásin hafi verið framkvæmd af vígasamtökum sem njóta stuðnings Írana.
„Ég efast ekki um það – við munum draga alla þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á þessu, á þeirri stund og á þann hátt sem við viljum,“ segir Biden í yfirlýsingu.