Biðlar til ríkja að tryggja starfsemina

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AFP/Luis Tato

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, biðlar til ríkja sem veita fjármagn til Palestínuflóttamannahjálparinnar, UNRWA, að tryggja áframhaldandi starfsemi hennar.

Starfsmenn stofnunarinnar liggja undir grun um að hafa með einhverjum hætti átt aðild að árás Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Ísrael 7. október.

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að frysta frekari greiðslur til UNRWA þar til haft hefur verið samráð við önnur norræn ríki um næstu skref. Norðmenn ætla ekki að frysta greiðslur til stofnunarinnar.

Bandaríkin, Ástralía, Kanada, Bretland, Þýskaland og Finnland eru á meðal þeirra ríkja sem þegar hafa fryst fjárveitingar.

Eigi ekki að refsa þúsundum öðrum

UNRWA kveðst hafa rekið nokkra starfsmenn sem liggja undir grun. Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, krefst afsagnar Philippes Lazzarini, forstöðumanns stofnunarinnar.

Guterres sagði að „andstyggilegt athæfi“ starfsfólksins ætti ekki að þýða að þúsundum öðrum sem vinna fyrir flóttamannahjálpina yrði refsað. Mæta þurfi brýnni þörf íbúa á Gasa fyrir mannúðaraðstoð.

„Þótt ég skilji áhyggjur þeirra – ég var sjálfur skelfingu lostinn yfir þessum ásökunum – þá biðla ég eindregið til ríkisstjórna sem hafa stöðvað framlög sín til að tryggja samfellu í aðgerðum UNRWA,“ sagði Guterres í yfirlýsingu í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert