Hver er Nikki Haley?

Nikki Haley hefur aukið fylgið sitt að undanförnu en á …
Nikki Haley hefur aukið fylgið sitt að undanförnu en á enn mjög langt í land ef hún ætlar að sigra Trump. AFP/Getty Images/Allison Joyce

Nikki Haley er síðasti mótframbjóðandi Donalds Trump í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.

Þegar hún tilkynnti framboð sitt fyrir 11 mánuðum mældist hún með 3,8% fylgi en fyrir þremur dögum hlaut hún 43,3% atkvæða í kosningu í New Hampshire á móti Trump.

Foreldrar Haley eru innflytjendur frá Indlandi og þurfti hún, að hennar sögn, oft að líða mismunun fyrir það að vera með dekkri húðlit en aðrir í smábænum sem hún ólst upp í. Hún segir þó að ákvörðun foreldra hennar um að flytja til Bandaríkjanna hafi verið besta ákvörðun sem þau hefðu nokkurn tímann getað tekið.

Leit á þetta sem svik við sig

Nikki Haley er fyrrverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu og var kjörinn ríkisstjóri þar í tvígang. Þjónaði hún frá árunum 2011-2017 og frægt er þegar hún tók ákvörðun um að fjarlægja Suðurríkjafánann, sem hafði fengið að blakta fyrir utan ríkisþingið. Tók hún þá ákvörðun í kjölfar hryllilegrar skotárásar í kirkju sem svartir sóttu.

Haley var svo tilnefnd af sjálfum Donald Trump til að þjóna sem sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar jukust vinsældir hennar meðal flokksmanna og líka hjá Trump, en hún varði þar af krafti Bandaríkin og Ísrael. Þar að auki gagnrýndi hún harðlega Íran og Kína.

Þann 14. febrúar 2022 tilkynnti hún svo loks að hún hygðist bjóða sig fram til forseta. Þetta hafði legið í loftinu í smá tíma og kom því flestum ekki á óvart. Donald Trump leit á þetta sem svik við sig og hafa pólitískar árásir hans gegn henni oft á tíðum verið vel fyrir neðan beltið. Kallar hann Haley til dæmis „birdbrain Nikki“ og ýjar þar með að því að hún sé með vitsmuni á við fugl.

Nikki Haley ásamt ríkisstjóra New Hampshire að heilsa upp á …
Nikki Haley ásamt ríkisstjóra New Hampshire að heilsa upp á kjósendur. AFP/Getty Images/Joe Raedle

Höfðar til breiðari hóps kjósenda

Í kjölfar þess að Ron DeSantis dró framboð sitt til baka í síðustu viku hefur fylgi Haley aukist, enda nú aðeins tveir frambjóðendur eftir í framboði. Fyrst var forval í Iowa þar sem hún hlaut 19% atkvæða en svo hlaut hún 43,3% atkvæði í forvalinu í New Hampsire á þriðjudag. Stór hluti þess fylgis kom þó frá óflokksbundnum, en þeir fá einnig að taka þátt í forvali flokkanna í New Hampshire.

Mbl.is ræddi við Corey Uhden sem er formaður ungliðahreyfingar í Kaliforníuríki til stuðnings Nikki Haley (e. CA State Chair of Young Americans for Nikki Haley). Blaðamaður hafði samband við hann og bað um útskýringar á því hver munurinn á Haley og Trump væri frá hans sjónarmiði, sem stuðningsmaður Haley.

„Helsti munurinn á henni og Trump er sá að Haley er íhaldssöm en einbeitir sér að málunum og höfðar til breiðari hóps kjósenda. Trump einbeitir sér að sínum vandamálum á meðan Haley hefur einbeitt sér að vandamálum Bandaríkjanna,“ segir Corey Uhden í samtali við mbl.is.

Haley hefur verið með aukinn meðbyr á síðustu vikum og mánuðum, eins og niðurstöður úr kosningunum sýna.

Corey telur að það felist í því að hún hafi slegið jákvæðari tón í kosningabaráttuna. Hann segir að hún hafi varið íhaldssaman feril sinn af krafti og á sama tíma boðað jákvæða og bjarta framtíðarsýn fyrir Bandaríkjamenn.

Corey Uhden.
Corey Uhden. Ljósmynd/Aðsend

Nikki Haley á langt í land

Þrátt fyrir það að fylgi hennar hafi aukist jafnt og þétt í kosningabaráttunni eru fáir sem telja að hún geti skákað Donald Trump. Á landsvísu mælist hann með yfir 66% fylgi meðal Repúblikana og hún er fjarri því að ná honum.

Næsta ríki sem mun kjósa í forvalinu verður hennar heimaríki, Suður-Karólína, og þar mælist Trump einnig með 30% forskot á Haley. Það eru nokkrar vikur í þær kosningar, 24. febrúar, og því spurning hvort Haley nái að brúa þetta mikla bil fram að því. Það telja fáir líklegt.

Fjölmiðlar hafa ítrekað spurt Haley hvort að hún sé í framboði til þess að fá að vera varaforsetaefni Trumps en hún hefur hafnað því. Þar að auki sagði Donald Trump nýlega að hún yrði líklega ekki fyrir valinu.

Ljóst er að Nikki haley á langt í land ef hún ætlar að hreppa hnossið.

Telegraph

RealClearPolitics

ABC News

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert