Kennarar á vegum UNRWA fögnuðu hryðjuverkum Hamas

Frá 7. október, þegar Hamas-liðar drápu um 1.140 Ísraelsmenn og …
Frá 7. október, þegar Hamas-liðar drápu um 1.140 Ísraelsmenn og tóku á þriðja hundrað manns í gíslingu. AFP

Fjöldi kennara á vegum UNRWA, eða Palestínuflótta­manna­hjálp­ar­inn­ar, fagnaði hryðjuverkaárás Hamas þann 7. október á samfélagsmiðlum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá eftirlitssamtökunum UN Watch.

Eins og fram hefur komið hafa nokkur ríki, Ísland þar á meðal, fryst fjárframlög til UNRWA á Gasaströndinni, þar sem stríð geisar enn og 25 þúsund manns hafa látið lífið að sögn heilbrigðisyfirvalda sem lúta stjórn Hamas.

Var það gert í kjölfar þess að Ísraelsmenn sökuðu tólf starfsmenn samtakanna um aðild að árásinni þann 7. október, þegar um 1.140 manns voru drepnir samkvæmt talningu AFP-fréttaveitunnar.

UNRWA er á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ).

„Heilagir stríðsmenn“ Hamas í hávegum hafðir 

Í skýrslu frá UN Watch, svissneskum félagasamtökum sem hafa eftirlit með SÞ, er vitnað í Telegram-hóp með um 3.000 kennurum á vegum UNRWA á Gasaströndinni.

Stjórnendur í hópnum eru sagðir hafi fagnað árás Hamas-samtakanna þann 7. október um leið og fréttir bárust af henni.

Mörgum stjórnendum hópsins, sem eru nafngreindir í skýrslunni, er gefið að sök að hafa fagnað „heilögum stríðsmönnum“ Hamas-samtakanna og beðið fyrir því að vígamennirnir myrtu Ísraelsmenn:

„Ó Guð, rífðu þá í sundur,“ „dreptu þá einn í einu,“ „taktu af lífi fyrstu landnámsmennina í beinni útsendingu.“

Einn stjórnandi er sagður hafa hvatt Gasabúa til þess að standa í stað og hjálpa Hamas. 

Segist hafa varað Biden við „árum saman“

Bandaríkin voru fyrst til þess að frysta fjárframlög til UNRWA og nokkur ríki hafa fylgt þeirra fordæmi. Bandaríkin hafa til þessa veitt mest fé til stofnunarinnar.

Ant­onio Guter­res, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, hefur aftur á móti biðlað til ríkja að tryggja áfram­hald­andi starf­semi henn­ar.

Áður en fréttir bárust af ásökunum Ísraelsmanna í garð UNRWA hafði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna hrósað starfi UNRWA og stjórn Joe Bidens Bandaríkjaforseta ákvað að endurlífga fjármögnun til flóttamannaaðstoðarinnar, sem var stöðvuð í forsetatíð Donalds Trumps.

„Árum saman hef ég varað Biden-stjórnina við því að halda fjárframlögum áfram til UNRWA, sem hefur um hríð ráðið fólk sem tengist hryðjuverkasamtökum eins og Hamas,“ sagði Jim Risch, æðsti fulltrúi Repúblikana í utanríkismálanefnd öldungadeildarinnar, á föstudag að því er Reuters greindi frá í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka