Hamas-liðar berjast með vopnum Ísraelshers

Vopnabúr Hamas-liða er fremur fjölbreytt enda vopnin úr ýmsum áttum. …
Vopnabúr Hamas-liða er fremur fjölbreytt enda vopnin úr ýmsum áttum. Stórum hluta vopnanna var stolið af óvini þeirra. AFP

Ísraelsher og leyniþjónusta Ísraels hafa komist að því að umtalsvert magn vopna sem hryðjuverkamenn Hamas notuðu í árásinni þann 7. október og nota nú til að verjast hefndarárásum Ísraelsmanna eigi sér fremur óvæntan uppruna, eða frá Ísraelsher.

Árum saman hefur verið talið að Hamas fái vopn sín að mestu leyti í gegnum neðanjarðargöng.

En New York Times greinir nú frá því að nýlegar rannsóknir sýni fram á að mörg flugskeyti Hamas gætu hafa verið gerð úr þeim þúsundum skotfæra sem ekki hafa sprungið þegar Ísraelsmenn hafa ráðist á svæðið. 

Hamas vopnar einnig vígamenn sína með byssum og handsprengjum sem stolið var frá ísraelskum herstöðvum. Þetta er mat vopnasérfræðinga og bæði ísraelskra og vestrænna leyniþjónustumanna.

Varpa fornum sprengjum Ísraelsmanna til baka

Talið er að um 10% flugskeyta springi ekki, en í tilfelli Ísraelshers gæti hlutfallið verið mun hærra. Í vopnabúri Ísraelshers eru meðal annars flugskeyti frá tímum Víetnamstríðsins sem önnur herveldi hafa fyrir löngu hætt að nota.

Tíðni bilana sumra þessara flugskeyta gæti verið allt að 15 prósent, segir einn ónafngreindur ísraelskur leyniþjónustumaður í samtali við New York Times.

Umfangsmiklar sprengjuárásir á Gasa undanfarin ár og í þeim átökum sem nú geisa hafa valdið því að þúsundir tonna af ósprungnu sprengiefni er á svæðinu og bíður þess að verða endurnýtt.

Ein 750 kílóa sprengja sem ekki springur getur orðið að hundruðum flugskeyta eða eldflauga.

Ísraelskir hermenn fyrir utan landamærin að Gasaströndinni.
Ísraelskir hermenn fyrir utan landamærin að Gasaströndinni. AFP

„Höldum óvini okkar gangandi með eigin vopnum“

Hamas-samtökin svöruðu ekki New York Times þegar dagblaðið leitaði viðbragða. Ísraelsher svaraði heldur ekki sérstökum spurningum um uppruna vopna Hamas en sagðist staðráðinn í að útrýma hryðjuverkasamtökunum.

Ísraelskir ráðamenn vissu fyrir árásina í október að Hamas gætu endurnýtt nokkuð af vopnum úr smiðju Ísraelsmanna en umfangið hefur vakið furðu meðal sérfræðinga.

New York Times bendir einnig á að Ísraelsk yfirvöld hafi vitað að vopn þeirra væru viðkvæm fyrir þjófnaði. 

„Við höldum óvini okkar gangandi með okkar eigin vopnum,“ sagði í skýrslu frá hernum frá því snemma á síðasta ári. Í skýrslunni kom fram að þúsundum byssukúlna og hundruðum skotvopna og handsprengna hefði verið stolið frá illa vöktuðum herstöðvum.

Samkvæmt skýrslunni fóru sum vopn til Vesturbakka Palestínu en önnur til Gasastrandarinnar. 

Hebreskt letur á vopnum vígamanna

Afleiðingar þessa komu í ljós þann 7. október, þegar um 1.140 voru drepnir í hryðjuverkaárás Hamas. Nokkrum klukkustundum eftir að hryðjuverkamenn Hamas brutust í gegnum landamærin fundu fjórir ísraelskir hermenn lík Hamas-vígamanns sem var drepinn fyrir utan herstöð í Re'im.

Hebreskt letur var á handsprengju í belti vígamannsins, að sögn eins hermannsins. Hermaðurinn sagði að um ísraelska handsprengju væri að ræða, sem hefði nýlega verið framleidd.

Við skoðun á einu af 5.000 flugskeytum sem notuð voru af Hamas í árásinni kom í ljós að sprengiefni úr þeim var að öllum líkindum úr ósprungnu ísraelsku flugskeyti sem áður hafði verið skotið á Gasa, að sögn ísraelsks leyniþjónustumanns.

Einnig er talið að mikill fjöldi vopna Hamas hafi komið frá Norður-Kóreu og Íran, en Íranar eru einn stærsti bakhjarl samtakanna.

Um 25 þúsund manns hafa verið drepnir á Gasaströndinni frá árás Hamas, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasaströndinni sem eru undir stjórn Hamas-samtakanna.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert