Vladimír Pútín er formlega orðinn frambjóðandi til embættis forseta í Rússlandi, en kosið verður dagana 15. til 17. mars.
Pútín, sem er 71 árs gamall, hefur stýrt Rússlandi frá aldamótum, náð kjöri í fernum forsetakosningum og gegnt embætti forsætisráðherra stuttlega í þokkabót.
Yfirkjörstjórnin staðfesti í dag framboð Pútíns sem og annars frambjóðanda, sem talinn er vera bandamaður Pútíns, Leonid Slutsky.
Enginn er talinn eiga möguleika gegn forsetanum og mannréttindasamtök segja að fyrri kosningar hafi einkennst af óreglu og líklegt sé að óháðum eftirlitsmönnum verði meinað að fylgjast með atkvæðagreiðslunni.
Þó að ekki sé búist við að Pútín muni mæta neinni raunverulegri samkeppni hefur frjálslyndi frambjóðandinn Boris Nadezhdin staðist undirskriftaþröskuldinn til að vera formlega viðurkenndur sem frambjóðandi.
Það er þó enn óljóst hvort hann fái leyfi til að bjóða sig fram.
Vegna umdeildra stjórnarskrárbreytinga sem gerðar voru árið 2020 gæti Pútín tæknilega séð setið sem forseti til ársins 2036.