Ísraelskir sérsveitarmenn, í gervi óbreyttra borgara og heilbrigðisstarfsmanna drápu þrjá unga palestínska menn á Ibn Sina sjúkrahúsinu í hernumdu borginni Jenin á Vesturbakka Jórdanár í dag.
Þetta segja ísraelskir og palestínskir embættismenn en CNN greinir frá.
Myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélum sem gengu manna á milli á samfélagsmiðlum virðast sýna um tugi hermanna dulbúna meðal annars sem hjúkrunarfræðinga og konur í „hijab“ ráðast þungvopnaða inn á sjúkrahúsgang. Einn er sagður hafa ýtt á undan sér hjólastól og annar haldið á barnabílstól.
Talsmenn úr röðum Hamas-hryðjuverkasamtakanna segja mennina sem féllu hafa verið bardagamenn úr röðum Jenin Brigades, regnhlífarsamtaka vopnaðra palestínskra fylkinga í Jenin.
Talsmenn Ísraelshers segja þá aftur á móti hafa verið vígamenn tengda Hamas-samtökunum og íslamska jihad. Itamar Ben Gvir, þjóðaröryggisráðherra Ísraels, í ríkisstjórn Benjamíns Netanjahú lofaði árásina.
Samkvæmt frétt WAFA-fréttastofunnar í Palestínu komu sérsveitarmennirnir inn á sjúkrahúsið og héldu rakleiðis upp á þriðju hæð þar sem þeir drápu ungu mennina. Vitnaði miðillinn í heimildir innan spítalans þar um.
Talsmenn Ísraelshers segja aðgerðina hafa beinst gegn Hamas-liðanum Mohammed Jalamneh, sem hafi verið í felum á sjúkrahúsinu.
Auk Jalamneh féllu tveir bræður í aðgerð hersins, Basil og Mohammad al-Ghazawi. Talsmenn Ibn Sina sjúkrahússins segja að Basil Al-Ghazawi hefði verið í meðferð vegna áverka sem hann hlaut í eldflaugaárás í kirkjugarðinum í Jenin í október. Sögðu þeir mennina alla hafa verið sofandi þegar árásin átti sér stað.
Engar fregnir hafa borist af frekara manntjóni í árásinni.
Heilbrigðisráðuneyti Palestínu, sem stýrt er af Hamas-hryðjuverkasamtökunum, fordæmdi árásina og skoraði á allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að veita heilbrigðisstofnunum og neyðarliðum nauðsynlega vernd.