Svíar hafa ákveðið að frysta greiðslur til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) í kjölfar fregna um að nokkrir starfsmenn liggi undir grun um aðild að árás Hamas-hryðjuverkasamtakanna á Ísrael þann 7. október.
Sænska ríkisútvarpið greindi frá þessu í kvöld.
Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að Svíar hygðust frysta greiðslur til UNRWA.
Greiðslur Svía til UNRWA, nema um 31 milljónum sænskra króna eða um 407 milljónum íslenskra króna og hyggjast þeir auka fjárframlög til Rauða krossins í staðinn.
„Við fylgjumst með áframhaldandi rannsókn og niðurstöðum hennar. Þar til það liggur fyrir munum við ekki greiða út frekara fjármagn,“ sagði Johan Tjerneng, samskiptafulltrúi hjá Sænsku alþjóðaþróunar-, og samvinnustofnuninni (SIDA), í samtali við Sænska ríkisútvarpið.
Johan Forssell ráðherra alþjóðaþróunar- og samvinnu sagði ákvörðunina góða í ljósi þeirra alvarlegu upplýsinga sem hafi komið fram á síðustu dögum.
Håkan Svenneling, talsmaður utanríkismála fyrir Vinstri flokksins, kveðst aftur á móti hafa miklar áhyggjur af afleiðingum ákvörðunarinnar út frá mannúðarsjónarmiðum.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, tók ákvörðun í vikunni um að frysta greiðslur Íslands til stofnunarinnar og kallaði eftir að málið yrði rannsakað til hlítar. Hefur hann síðar sagt viðbótarframlög verða veitt til Rauða krossins á Íslandi vegna þeirrar neyðar sem ríki fyrir botni Miðjarðarhafs.
Finnland hefur einnig fryst greiðslur sínar til stofnunarinnar en auk ofangreindra Norðurlanda hafa Bandaríkin, Ástralía, Bretland, Kanada, Frakkland, Þýskaland, Ítalía og Holland fryst greiðslur sínar tímabundið.
Norðmenn hafa aftur á móti ákveðið að frysta ekki fjárframlög til UNRWA í kjölfar ásakananna og sagði í yfirlýsingu frá norska sendiráðinu í Palestínu að mikilvægt væri að greina á milli þess sem einstaklingar kunna að hafa gert og tilgangi stofnunarinnar.