Ísraelsk stórskotaliðshríð hefur dunið á Suður-Gasa frá því snemma í morgun en Ísraelar lýstu því yfir í gær að þeir hefðu tekið að dæla sjó inn í neðanjarðargangakerfi Hamas-hryðjuverkasamtakanna undir Gasa.
Segir palestínska heilbrigðisráðuneytið, sem lýtur stjórn Hamas, að 125 manns hafi farist í þessari lotu árásanna en embættismenn Sameinuðu þjóðanna segja í yfirlýsingu að hjálparstarf í uppnámi vegna greiðslustöðvunar til Palestínuflóttamannahjálpar SÞ, UNRWA, gæti haft „skelfilegar afleiðingar fyrir íbúa Gasa“.
Eru starfsmenn UNRWA grunaðir um að hafa tekið þátt í árás Hamas-liða á Ísrael í byrjun október sem varð kveikjan að hefndarstríði sem enn sér ekki fyrir endann á. Friðarviðræður hafa þó komist á rekspöl en á sunnudaginn funduðu embættismenn frá Bandaríkjunum, Ísrael, Egyptalandi og Katar um drög að samningum um nýtt vopnahlé en katörsk stjórnvöld hafa gegnt hlutverki sáttasemjara í deilunni.
Gaf Ísraelsher það út í dag að hermenn hans hefðu fellt fimmtán „hryðjuverkamenn“ á Norður-Gasa og handtekið tíu vígamenn í áhlaupi á skóla þar sem hinir handteknu höfðu leitað skjóls.
Segir upplýsingaskrifstofa ríkisstjórnar Hamas að „tugir loftárása“ hafi dunið á borginni Khan Yunis á Suður-Gasa í nótt en að sögn AFP-fréttastofunnar eru hlutar borgarinnar orðnir að „drullugri auðn sundursprengdra bygginga“.
Að sögn vitna hæfðu sprengikúlur stórskotaliðsins Nasser-sjúkrahúsið, það stærsta í Khan Yunis, en þar dvelja nú að sögn Samhæfingarskrifstofu mannúðarmála hjá SÞ, OCHA, þúsundir heimilislausra Palestínumanna. Auk þess hefur skothríðin borist nærri öðru sjúkrahúsi borgarinnar eftir því sem Rauði hálfmáninn, systursamtök Rauða krossins í Palestínu, greindi frá á samfélagsmiðlinum X.
Blaðamaður AFP í Khan Yunis varð vitni að flótta fólks út úr borginni í gær á meðan sprengignýrinn dundi allt um kring. „Við yfirgáfum Nasser-sjúkrahúsið [...] í loftárásum og skothríð frá skriðdrekum. Við vissum ekkert hvert við ættum að fara,“ sagði kona nokkur við blaðamanninn og sagði fólkið nú þurfa að komast af upp á eigin spýtur.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sem áður hafði gefið það út gegnum skrifstofu sína að samningaviðræður um vopnahlé væru „uppbyggilegar“, þvertekur þó fyrir að sleppa „þúsundum“ palestínskra fanga úr haldi. Það verði ekki klásúla í neinum vopnahléssamningi.
„Ég vil að það komi skýrt fram [...] að við munum ekki draga her okkar til baka frá Gasa og við munum ekki sleppa þúsundum hryðjuverkamanna. Hvorugt mun eiga sér stað,“ sagði forsætisráðherrann í gær.
Joe Biden Bandaríkjaforseti lét þau orð falla í gær að drónaárás, sem varð þremur bandarískum hermönnum að bana í herstöð þeirra í Jórdaníu, yrði kveikjan að mótleik Bandaríkjahers án þess þó að tjá sig um í hverju sá mótleikur fælist.
„Ég held að við þörfnumst síst frekari átaka í Mið-Austurlöndum,“ sagði forsetinn þó í kjölfarið, „það er ekki það sem ég er að sækjast eftir.“