„Gasa á þessari stundu er óbyggilegt“

Ísraelskur bryndreki hýsir hermenn sem fylgjast með Palestínumönnum á flótta …
Ísraelskur bryndreki hýsir hermenn sem fylgjast með Palestínumönnum á flótta frá borginni Khan Yunis í suðurhluta Gasa. AFP

Stríð Ísraels gegn hryðjuverkasamtökunum Hamas hefur skemmt eða eyðilagt um helming allra bygginga á Gasasvæðinu. Árásir ríkisins hafa raunar gert svæðið óbyggilegt. Þetta segir í nýrri skýrslu frá stofnun Sameinuðu þjóðanna um viðskipti og þróun, UNCTAD.

Fram kemur í skýrslunni að tugi milljarða bandaríkjadala þurfi til að reisa svæðið við að nýju.

Frá því stríðið hófst, í kjölfar mannskæðra hryðjuverka Hamas í Ísrael þann 7. október, hefur lífsskilyrðum borgaranna hnignað hratt að sögn SÞ.

Börn sitja nærri tjöldum í bráðabirgðaflóttamannabúðum fyrir Palestínumenn sem flúið …
Börn sitja nærri tjöldum í bráðabirgðaflóttamannabúðum fyrir Palestínumenn sem flúið hafa til Rafah í suðurhluta Gasasvæðisins. AFP

50% bygginga skemmdar eða eyðilagðar

Samkvæmt útreikningum stofnunarinnar í lok nóvember höfðu 37.379 byggingar, eða 18% af heildarfjölda bygginga á Gasasvæðinu, verið ýmist skemmdar eða eyðilagðar í árásum Ísraelshers.

Síðan þá sýna gervihnattamyndir sífellt meiri eyðileggingu, að sögn Rami Alazzeh, hagfræðings við stofnunina sem sérhæfir sig í aðstoð við palestínska borgara, en hann er meðhöfundur skýrslunnar.

„Nýju gögnin sýna að 50% bygginga í Gasa eru skemmdar eða eyðilagðar,“ segir hann í samtali við AFP-fréttastofuna. Varar hann við því að þeim mun lengur sem hernaðaraðgerðir Ísraelshers í Gasa standi yfir, því verri verði afleiðingarnar.

„Gasa á þessari stundu er óbyggilegt.“

Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu. Herinn réðst þar inn í kjölfar …
Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu. Herinn réðst þar inn í kjölfar mannskæðra hryðjuverka Hamas-samtakanna. AFP

Allt atvinnulíf numið staðar

Tekið er fram að um 45% vinnuafls á Gasa hafi verið án atvinnu fyrir 7. október. Í desember hafi hlutfallið náð nærri 80%.

„Allt atvinnulíf á Gasa hefur skyndilega staðnæmst,“ segir Alazzeh og bætir við að nærri þeir einu sem nú séu starfandi vinni við mannúðaraðgerðir.

Stofnun metur það svo að jafnvel þótt hafist yrði handa strax við endurbyggingu, og Gasa sneri aftur til þess 0,4% meðalhagvaxtar sem sést hefur undanfarin ár, tæki það sjö áratugi fyrir svæðið að ná aftur landsframleiðslu ársins 2022.

Mikillar aðstoðar alþjóðasamfélagsins yrði þörf, sérstaklega ef markmiðið er að bæta lífsskilyrði á Gasa enn frekar.

Reykjarmekkir stíga til himins eftir loftárásir Ísraela á borgina Khan …
Reykjarmekkir stíga til himins eftir loftárásir Ísraela á borgina Khan Yunis. Í forgrunni: Palestínumenn á flótta undan innrás Ísraelshers. AFP

Rjúfa þurfi vítahringinn

„Það er engum vafa undirorpið að kostnaðurinn mun nema nokkrum tugum milljarða dala,“ segir í skýrslunni og það tekið fram að þá sé hann hóflega metinn.

Loks leggur stofnunin áherslu á að sérhver lausn við krísunni þyrfti að fela í sér að bundinn yrði endi á hernaðaraðgerðir, takmörkunum á landamærum aflétt og að tekin yrðu skref í átt að tveggja ríkja lausninni.

Markmiðið geti ekki verið að hverfa aftur til þess ástands sem ríkti fyrir október í fyrra.

„Þessi skelfilegi vítahringur eyðileggingar og takmarkaðrar endurbyggingar – hann þarf að rjúfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka