Haraldur Noregskonungur, sem er 86 ára gamall og heilsuveill, verður í veikindaleyfi fram á föstudag vegna öndunarfærasýkingar að því er kemur fram í tilkynningu frá norsku konungshöllinni.
Haraldur hefur átt við heilsuleysi að stríða síðustu misseri. Hann útilokaði í síðustu viku að hann myndi segja af sér embætti og fylgja þannig í fótspor Margrétar Danadrottningar sem lét af völdum fyrr í mánuðinum.
„Ég stend við það sem ég hef ávallt sagt, að ég sór Stórþinginu eið og hann stendur til æviloka,“ sagði Haraldur við norska fjölmiðla.
Haraldur verður 87 ára 21. febrúar. Hann hefur setið í hásæti í 33 ár.
Hákon krónprins, sem er fimmtugur, mun gegna embættisskyldum konungs í fjarveru hans.