Óttast um afdrif sex ára stúlku

Stúlka með hvítan fána í hönd, þar sem hún gengur …
Stúlka með hvítan fána í hönd, þar sem hún gengur ásamt fleiri Palestínumönnum á flótta frá borginni Khan Yunis. AFP

Ekkert hefur spurst til sex ára palestínskrar stúlku, Hind, og áhafnar sjúkrabíls sem send var út henni til bjargar í norðurhluta Gasa. Þegar síðast heyrðist frá henni var hún föst í bílflaki með látnum foreldrum sínum og systkinum.

Fimmtán ára systir hennar er talin hafa látist í miðju símtali þar sem hún grátbað um aðstoð frá Rauða hálfmánanum.

Fréttastofa katarska miðilsins Al Jazeera greinir frá þessu nú síðdegis og birtir upptöku af símtali systranna við hjálparsamtökin.

Ísraelski herinn að störfum á Gasasvæðinu í nótt. Stúlkan sagðist …
Ísraelski herinn að störfum á Gasasvæðinu í nótt. Stúlkan sagðist í símtalinu óttast myrkrið. AFP

Í símanum í fleiri klukkustundir

Rauði hálfmáninn gerir ráð fyrir að öll fjölskylda stúlkunnar hafi látist. Stúlkan hafi í kjölfarið rætt við fulltrúa Rauða hálfmánans í fleiri klukkustundir þar sem hún var föst í bílflakinu.

„Hún sagði mér að myrkur væri að skella á, og að hún væri hrædd við myrkrið,“ hefur fréttastofan eftir Rönu Alfaqah, sem sér um að samhæfa viðbragð Rauða hálfmánans í Palestínu.

Hjálparsamtökin sendu út sjúkrabíl til að bjarga Hind, en allt samband við áhöfn sjúkrabílsins rofnaði.

Ættingjar stúlkunnar bíða enn og vona að hún finnist á lífi.

„Stafar heiminum hætta af þessari stúlku?“ spyr einn þeirra.

Skotin til bana með ömmubarnið við hlið sér

Nokkrir dagar eru síðan fjallað var um átján ára gamla palestínska konu, sem horfði upp á móður sína skotna til bana þar sem hún leiddi fjög­urra ára gaml­an dreng, ömmu­barnið, sér við hlið á flótta und­an vopnuðum átök­um í al-Rimal-hverf­inu í Gasa­borg 12. nóv­em­ber.

Höfðu ísra­elsk­ir skriðdrek­ar ekið inn í hverfið nokkr­um dög­um áður, árás­ar­drón­ar svifu yfir byggðinni og sprengjugnýr­inn var ær­andi.

„Móðir mín hefði orðið 58 ára 30. des­em­ber og hélt í hönd barna­barns­ins síns. Hvers vegna að skjóta hana?“ spurði konan, Sara Khreis, í samtali við fréttamann CNN.

Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu. Herinn réðst þar inn í kjölfar …
Ísraelskir hermenn á Gasasvæðinu. Herinn réðst þar inn í kjölfar mannskæðra hryðjuverka Hamas-samtakanna. AFP

Sífellt meiri eyðilegging

Stríð Ísra­els gegn hryðju­verka­sam­tök­un­um Ham­as hef­ur skemmt eða eyðilagt um helm­ing allra bygg­inga á Gasa­svæðinu, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem mbl.is fjallaði um fyrr í kvöld.

Sam­kvæmt út­reikn­ing­um stofn­un­ar­inn­ar í lok nóv­em­ber höfðu 37.379 bygg­ing­ar, eða 18% af heild­ar­fjölda bygg­inga á Gasa­svæðinu, verið ým­ist skemmd­ar eða eyðilagðar í árás­um Ísra­els­hers.

Síðan þá sýna gervi­hnatta­mynd­ir sí­fellt meiri eyðilegg­ingu, að sögn Rami Alazzeh, hag­fræðings við stofn­un­ina sem sér­hæf­ir sig í aðstoð við palestínska borg­ara, en hann er meðhöf­und­ur skýrsl­unn­ar.

„Nýju gögn­in sýna að 50% bygg­inga í Gasa eru skemmd­ar eða eyðilagðar,“ seg­ir hann í sam­tali við AFP-frétta­stof­una. Var­ar hann við því að þeim mun leng­ur sem hernaðaraðgerðir Ísra­els­hers í Gasa standi yfir, því verri verði af­leiðing­arn­ar.

„Gasa á þess­ari stundu er óbyggi­legt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka