Tæknirisar svara fyrir ofbeldi gegn börnum

Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, bar vitni.
Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, bar vitni. AFP/Brendan Smialowski

Tilkynningum um barnaníðsefni hefur fjölgað gríðarlega í Bandaríkjunum. Erfiðlega gengur að koma í gegn löggjöf um málið á meðan tæknirisar lofa umbótum sem engu virðast skila.

Mark Zuckerberg, forstjóri Meta og forstjórar TikTok, X, Discord og Snapchat báru vitni fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings vegna málsins í dag. 

Fundurinn bar yfirskritina „Tæknirisarnir og aukið kynferðislegt ofbeldi gegn börnum á netinu“.

Forstjórar Meta og TikTok samþykktu sjálfviljugir að bera vitni en senda þurfti forstjórum Snapchat, X og Discord stefnu þar sem þeir neituðu upphaflega að mæta.

Barnaníðsefni á samfélagsmiðlum áhyggjuefni

Markmið fundarins var að rannsaka hvernig samfélagsmiðlarnir berjast gegn skaðlegu efni á netinu og hvað þurfi að gera til að vernda börn betur. Fjöldi fórnarlamba stafræns ofbeldis og aðstandendur þeirra voru viðstaddir í dag.

Formaður nefndarinnar, Demókratinn Dick Durbin, sagði í opnunarávarpi sínu málefni fundarins vera eitthvað sem er flestum bandarískum fjölskyldum ofarlega í huga.

Hann greindi frá því að tilkynningum um barnaníðsefni hafi fjölgað um 100.000 árið 2023 og auknar áhyggjur væru af því að börn væru kúguð til að taka upp myndskeið af kynferðislegum toga af sjálfum sér og senda.

„Útbreiðsla snjallsíma hefur kynnt til sögunnar forrit til að deila myndum, myndböndum og lifandi efni sem hefur breytt því hvernig við lifum lífinu. Þessi forrit hafa líka gefið kynferðisbrotamönnum tæki til að misnota börnin okkar," sagði Durbin.

Alvarlegar ásakanir þingmanna

Forstjórar tæknifyrirtækjanna sátu undir alvarlegum ásökunum þingmanna. Repúblikaninn Marsha Blackburn sagði meðal annars að börn væru ekki í forgangi hjá fyrirtækjunum heldur væru þau bara leið fyrir fyrirtækin til að græða meiri peninga.

Repúblikaninn Josh Hawley benti á tölfræði, sem hann segir koma úr rannsókn Meta. Þar segir að 24% notenda Instagram á aldrinum 13-15 ára hafi orðið fyrir óæskilegri kynferðislegri áreitni á síðustu sjö dögum.  

Zuckerberg stóð upp og baðst afsökunar á þeim skaða sem Facebook og Instagram hefur valdið þolendum ofbeldis á miðlunum og aðstandendum þeirra.

Þingið lengi að grípa til aðgerða

Bandaríkjaþing hefur ekki tekið stór skref í sambandi við öryggi barna á netinu í um það bil 25 ár og margir þingmenn tóku fram að það væri löngu tímabært að grípa til aðgerða. Skýr vilji virðist vera hjá báðum flokkum um að bregðast við.

Þingmenn hafa hingað til ekki náð árangri í að koma í gegn lögum um málefnið. Tæknifyrirtækin hafa lofað sífellt fleiri aðgerðum og fjárfestingum til að vernda börn á miðlum sínum.

Viðstaddir héldu á lofti ljósmyndum af börnum sem höfðu orðið …
Viðstaddir héldu á lofti ljósmyndum af börnum sem höfðu orðið fyrir skaða af samfélagsmiðlum. AFP/Brendan Smialowski
Mótmæli fyrir framan þinghúsið.
Mótmæli fyrir framan þinghúsið. AFP/Julia Nikhinson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert