Biden refsar landnemum á Vesturbakkanum

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sætt gagnrýni fyrir mikinn stuðning við …
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sætt gagnrýni fyrir mikinn stuðning við Ísrael. AFP/Saul Loeb

Joe Biden Bandaríkjaforseti hyggst beita refsiaðgerðum gegn fjórum land­nemum sem eru sakaðir um að ráðast á Palestínumenn á Vesturbakkanum.

Í dag undirritaði forsetinn tilskipun þar sem kom fram að ofbeldi á Vesturbakkanum hefði náð „óbærilegu“ magni.

Refsiaðgerðirnar munu koma í veg fyrir að landnemarnir geti ferðast til Bandaríkjanna og eigi í viðskiptum við bandarísk fyrirtæki.

Fjórir eru beittir refsiaðgerðunum í dag en búast má við fleiri tilkynningum um slíkt á næstunni, að sögn talsmanna Bidens sem ræddu við New York Times um refsiaðgerðirnar.

Miðillinn greinir frá því að Palestínumenn auk margra sérfræðinga hafi um hríð bent á að ísraelsk stjórnvöld hafi leyft landnemum, sem oft eru vopnaðir, að starfa óáreittum á Vesturbakkanum.

Mun færri Arabar í Bandaríkjunum styðja Biden

Biden hefur sætt gagnrýni að undanförnu vegna stuðnings Bandaríkjanna við Ísrael í stríðinu á Gasaströndinni, meðal annars frá Demókrötum – sínum eigin flokksmönnum.

Bandarískir ráðamenn segjast óttast að árásir landnema á Palestínumenn á Vesturbakkanum geti aukið enn á ofbeldið og gert ástandið enn verra.

Biden hyggst einmitt heimsækja Michigan-ríki á næstu dögum, en þar býr fjöldi Araba sem hefur gagnrýnt stuðning Bidens við Ísrael. Meðal Araba hefur stuðningur við Biden hríðfallið frá síðustu forsetakosningum, úr 59% til 17% samkvæmt skoðanakönnun frá því í fyrra.

Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur svarað refsiaðgerðunum Bidens með því að segja að langflestir landnemar á Vesturbakkanum væru „löghlýðnir borgarar“.

Í desember skrifaði Biden undir vegabréfsáritunarbann er snerti tugi ísraelskra landnema sem höfðu framið ofbeldisverk á Vesturbakkanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert