Bandarískt viðbragð: Árásir yfir nokkra daga

Ebrahim Raisi, forseti Írans, og Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Ebrahim Raisi, forseti Írans, og Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. Samsett mynd/AFP/Atta Kenare/Mandel Ngan

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa samþykkt áætlanir um röð árása á írönsk skotmörk í Sýrlandi og Írak, að því er bandarískir embættismenn hafa greint CBS News frá.

BBC greinir frá.

Árásirnar myndu eiga sér stað á nokkurra daga tímabili. Hvenær þær hefjast mun ráðast af veðuraðstæðum. Fyrir fimm dögum síðan voru þrír bandarískir hermenn drepnir og 41 særðist í drónaárás í Jórdaníu og hafa Bandaríkjamenn sakað íslamska vígamenn, sem njóta stuðnings Írans, um verknaðinn.

Líkt drónunum sem Íran hefur sent Rússlandi

Bandarískir embættismenn hafa sagt að bandaríska leyniþjónustan telji að dróninn sem notaður var til að ráðast á herstöðina hafi verið framleiddur af Íran og sé svipaður þeim drónum sem Íranar hafa sent til Rússlands.

Á blaðamannafundi í gær varði Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sein viðbrögð hersins og sagði:

„Við munum bregðast við þar sem við viljum, þegar við viljum og hvernig við gerum það.“

165 árásir á Bandaríkjamenn frá upphafi stríðs

Þeir embættismenn sem ræddu við CBS News gáfu ekki upp nákvæma tímalínu um það hvenær árásirnar yrðu.

Þeir sögðu að bandaríski herinn gæti framkvæmt þær í slæmu veðri, en vildu helst gera þetta við góð veðurskilyrði til að draga úr hættu á að almennir borgarar lentu í skotlínunni.

Síðan að stríðið hófst á milli Ísraels og hryðjuverkasamtakanna Hamas þann 7. október hafa verið 165 árásir gerðar á bandarískar hersveitir í Mið-Austurlöndum. Árásin fyrir fimm dögum var sú fyrsta þar sem bandarískir hermenn féllu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert