Bandaríski herinn hæfði alls sjö staði í loftárásum sínum á íranska byltingarvörðinn og vígasveitir tengdar honum í kvöld.
Fjórir staðanna eru í Sýrlandi og þrír í Írak. Alls var skotið á 85 skotmörk á um 30 mínútum. Notaði herinn til þess að minnsta kosti 125 sprengjur.
Loftárásin er svar Bandaríkjahers við drónaárás sem gerð var á herstöð Bandaríkjamanna í Jórdaníu 28. janúar. Þrír bandarískir hermenn féllu í árásinni. Íranski byltingarvörðurinn og vígasveitir honum tengdar eru sagðar bera ábyrgð á árásinni.
Joe Biden Bandaríkjaforseti var ómyrkur í máli er hann sendi út tilkynningu vegna árásanna í kvöld. Sagðist hann hafa hug á að hefta útbreiðslu átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs en að hann léti ekki árásir á herlið sitt viðgangast. „Ef þið vinnið Bandaríkjamanni mein, þá munum við svara,“ segir Biden í tilkynningu sinni.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, tók í sama streng og forsetinn. Sagði hann að árásum á herlið Bandaríkjanna yrði svarað. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja Bandaríkin, herlið okkar og hagsmuni,“ sagði varnarmálaráðherrann í tilkynningu.
Biden gaf til kynna í tilkynningu sinni í kvöld að árásirnar myndu halda áfram.
Íran hefur neitað að bera ábyrgð á drónaárásinni og segja ásakanir Bandaríkjamanna vera illa ígrundaðar. Klerkastjórnin í Íran hafi ekki átt þátt í ákvörðun vígasveitanna.
John Kirby, öryggisráðgjafi Hvíta hússins, hefur ekki átt í samskiptum við Írani síðan 28. janúar.
Árásirnar eru sagðar vera gerðar í Írak og Sýrlandi því þar séu mikilvæg hergögn geymd. Íranski byltingarvörðurinn hafi aðgang að þessum geymslum og fái þaðan sín hergögn.
Vígasveitir með tengsl við íranska byltingavörðinn hafa gert vel á annað hundrað árásir á herstöðvar Bandaríkjanna síðan 7. október.
Vígasveitirnar eru sagðar vera þjálfaðar og fjármagnaðar af íranska byltingarverðinum. Þá láti hann þeim í té hergögn sem notuð eru til að hæfa herstöðvar Bandaríkjamanna. Vígasveitirnar eru þó ekki endilega sagðar lúta alfarið stjórn íranska byltingarvarðarins.