Íranar fordæma árásina en lofa ekki hefndum

Hossein Amir Abdollahian
Hossein Amir Abdollahian AFP

Íranar fordæmdu í dag árásir Bandaríkjamanna í Írak og Sýrlandi en heita ekki hefndum. Þeir segja Bandaríkin hafa gert „hernaðarleg mistök“.

Banda­ríkja­her hæfði alls sjö staði í loft­árás­um sín­um í gær­kvöldi. Árás­in var svar við drónaárás á her­stöð Banda­ríkja­manna í Jórdan­íu síðustu helgi, þar sem þrír banda­rísk­ir her­menn féllu. Vígamannasamtök sem tengjast Íran lýstu árásinni á hendur sér.

New York Times greinir frá.

Hossein Amir Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, segir við þarlenda miðla að árásir Bandaríkjanna séu hluti af margra áratuga tilraunum Bandaríkjamanna til að „leysa vandamál með því að reiða sig á vald og hernað.“ 

Bandarísku herstöðvarnar sem urðu fyrir árás vígasveita.
Bandarísku herstöðvarnar sem urðu fyrir árás vígasveita. AFP

Írakar og Sýrlendingar vilji „frelsa lönd sín“

Fyrr í dag hafði talsmaður utanríkisráðuneytisins, Nasser Kanaani, kallað árásina „önnur hernaðarleg mistök bandarískra stjórnvalda“ og spáði því að árásirnar gerðu svæðið enn óstöðugra.

Fjög­ur skot­mörk sem Banda­rík­in hæfðu eru í Sýr­landi og þrjú í Írak. Alls var skotið á 85 skot­mörk og notaði her­inn í það minnsta 125 sprengj­ur. Að minnsta kosti 23 víga­menn í Sýrlandi féllu, að sögn sýr­lensku mann­rétt­inda­vakt­ar­inn­ar.

Líbönsku Hezbollah-samtökin, nánustu bandamenn Írana í Mið-Austurlöndum, sögðu í yfirlýsingu að árásirnar sýndu að Bandaríkin vildu auka átökin á svæðinu, frekar en að draga úr þeim.

Abdollahian segir að árásirnar myndu aðeins gera Írak og Sýrland staðráðnari í að „frelsa lönd sín undan hernámi Bandaríkjamanna“. 

Íslamska andspyrnuhreyfingin

Íranar fjármagna og vopna vígasveitir víðs vegar um svæðið sem eru andsnúnar áhrifum Bandaríkjamanna og Ísraelsmanna í Mið-Austurlöndunum.

Íslamska andspyrnuhreyfingin í Írak, regnhlífarsamtök sjía-vígasveita með tengingu við Íran, hafa lýst yfir ábyrgð á drónaárásinni í Jórdaníu og Bandaríkin hafa sakað ein undirsamtök þeirra, Kata'ib Hezbollah, um að standa að baki árásarinnar.

Eftir að Bandaríkjamenn sögðust í vikunni ætla að svara í sömu mynt tilkynntu Kata'ib Hezbollah að þau hygðust fresta árásum á bandarískar herstöðvar og fullyrtu að ákvarðanir sínar væru óháðar írönskum stjórnvöldum.

Önnur vígasamtök, Harakat al-Nujaba, sem eru talin vera náinn bandamaður hernaðarafla Írana, sögðu í yfirlýsingu að „íslamska andspyrnuhreyfingin mun bregðast við með því sem við á, á þeim tíma og stað sem við viljum og það er ekki endirinn.“ Þau virðast þar vitna í orð Joe Bidens Bandaríkjaforseta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert