Rúss­ar vilja að ör­ygg­is­ráð SÞ komi sam­an

Frá fundi öryggisráðsins í janúar.
Frá fundi öryggisráðsins í janúar. SPENCER PLATT

Rúss­nesk stjórn­völd hafa óskað eft­ir fundi í ör­ygg­is­ráði Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) í ljósi árása Bandaríkjamanna í Írak og Sýrlandi. 

„Rétt í þessu kröfðumst við fundar í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna ógnarinnar sem stafar af árásum Bandaríkjamanna í Sýrlandi og Írak,“ sagði í færslu Dmítrí Polyanskí, erindreka Rússa hjá SÞ, á samfélagsmiðlum.

Hamas fordæmir árásirnar

Þá hafa hryðjuverkasamtökin Hamas fordæmt árásir Bandaríkjamanna í Írak og Sýrlandi í nótt og segja að bandarísk stjórnvöld hafi ausið „olíu á eldinn“ í Mið-Austurlöndum.

Banda­ríkjaher hæfði alls sjö staði í loft­árás­um sín­um á ír­anska bylt­ing­ar­vörðinn og víga­sveitir hon­um tengd­ar í gær­kvöldi. Árásin var svar við dróna­árás á her­stöð Bandaríkjamanna í Jórdaníu síðustu helgi, þar sem þrír banda­rísk­ir her­menn voru felldir.

Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas-hryðjuverkasamtakanna.
Ismail Haniyeh, leiðtogi Hamas-hryðjuverkasamtakanna. AFP

Hamas segja í yfirlýsingu að Bandaríkjamenn beri ábyrgð á „afleiðingum þessarar hrottalegu árásar gegn Írak og Sýrlandi, sem ausa olíu á eldinn.“ 

„Við staðfestum að hvorki verður stöðugleiki né friður á svæðinu [Mið-Austurlöndum] nema með því að stöðva árásir síonista [Ísraelsmanna] og þjóðarmorð og þjóðernishreinsun gegn íbúum okkar á Gasaströndinni,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Írakar segja óbreytta borgara hafa fallið

Fjögur skotmörk sem Bandaríkin hæfðu eru í Sýr­landi og þrjú í Írak. Alls var skotið á 85 skotmörk og notaði her­inn í það minnsta 125 sprengj­ur.

Að minnsta kosti 23 vígamenn sem [aðhylltust] Íran í Sýrlandi féllu, að sögn sýrlensku mannréttindavaktarinnar.

Í Írak féllu 16 manns, þar á meðal óbreyttir borgarar, að sögn stjórnvalda í Bagdad.

Bandaríkin orðið fyrir fjölda árása

Hersveitir Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra hafa orðið fyrir meira en 165 árásum í Írak, Sýrlandi og Jórdaníu frá því um miðjan október, eftir að stríð braust út á Gasaströndinni í kjölfar árásar Hamas-samtakanna á Ísrael.

Árásin leiddi til dauða yfir 1.160 Ísraelsmanna, aðallega almennra borgara, samkvæmt talningu fréttaveitunnar AFP, sem byggir er á opinberum tölum frá Ísrael.

Ísraelar hófu því árásir á Gasa og hafa að minnsta kosti 27.238 manns fallið í árásunum, flestir þeirra konur, börn og unglingar, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Hamas-samtakanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert