Höskuldur Daði Magnússon
Áskrifendum streymisveitunnar Netflix fjölgaði um 13 milljónir síðustu þrjá mánuði ársins 2023 þrátt fyrir að áskriftarverð hafi á sama tíma verið hækkað. Staða Netflix hefur ekki verið svona sterk um árabil, en nú getur veitan státað af 260 milljón áskrifendum um heim allan.
Fyrirtækið hagnaðist um 129 milljarða króna á síðasta ársfjórðungi, samanborið við 7,5 milljarða á sama tímabili árið á undan. Helsti keppinauturinn, Disney+, var með 150 milljónir áskrifenda í lok síðasta árs en tap fyrirtækisins var umtalsvert.
Ýmsir greinendur hafa í kjölfarið sagt stöðu Netflix óhagganlega á toppnum og sumir ganga svo langt að lýsa því yfir að veitan hafi unnið stríðið milli streymisveitanna.
Eins og fjallað hefur verið um í Morgunblaðinu á síðustu misserum hafa streymisveitur háð harða baráttu um hylli áhorfenda. Framboð á efni var um tíma hreint ótrúlegt, enda kepptust þær við að framleiða stórar þáttaraðir og kvikmyndir. Allra virkustu sófakartöflur voru fljótt komnar með fjölmargar áskriftir ef þær gættu ekki að sér. Nú er þessi þróun að ganga til baka.
Sérfræðingar segja að neytendur séu nú almennt ekki tilbúnir að greiða fyrir nema þrjár áskriftir að veitum hið mesta. Þar eru Netflix, Disney+ og Amazon Prime Video efstar á blaði en veitur á borð við Paramount+, Max (áður HBO Max) og Peacock eiga erfiða tíma fyrir höndum.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu 31. janúar.