Sýrlendingar fordæma árásir Bandaríkjanna

„Ef þið vinnið Banda­ríkja­manni mein, þá mun­um við svara,“ var …
„Ef þið vinnið Banda­ríkja­manni mein, þá mun­um við svara,“ var haft eftir Biden í til­kynn­ingu. AFP/Saul Loeb

Stjórn­völd í Dam­askus sögðu í morg­un að her­nám Banda­ríkj­anna á sýr­lensk landsvæði gæti ekki haldið áfram.

Banda­ríski her­inn hæfði alls sjö staði í loft­árás­um sín­um á ír­anska bylt­ing­ar­vörðinn og víga­sveit­ir tengd­ar hon­um í gær­kvöld.

Fjór­ir staðanna eru í Sýr­landi og þrír í Írak. Alls var skotið á 85 skot­mörk á um 30 mín­út­um og notaði her­inn til þess að minnsta kosti 125 sprengj­ur.

Loft­árás­in var svar Banda­ríkja­hers við dróna­árás sem gerð var á her­stöð Banda­ríkja­manna í Jórd­an­íu 28. janú­ar en þrír banda­rísk­ir her­menn féllu í árás­inni.

Réðust ekki inn á ír­anskt landsvæði

Seg­ir í yf­ir­lýs­ingu frá sýr­lenska hern­um að í árás­un­um í nótt hafi fjöldi óbreyttra borg­ara og her­manna fallið. Auk þess hafi marg­ir særst og tjón á al­menn­ings- og einka­eign­um sé veru­legt. 

Kom jafn­framt fram að her­inn myndi frelsa allt sýr­lenskt landsvæði und­an hryðju­verk­um og her­námi.

Banda­ríkja­menn kenndu hóp­um, sem studd­ir eru af Íran, um dróna­árás­ina í Jórdan­íu á sunnu­dag en réðust ekki inn á ír­anskt landsvæði, þar sem bæði ráðamenn í Washingt­on og Teher­an virt­ust hafa viljað forðast alls­herj­ar­stríð.

Geta ekki rétt­lætt þessa árás­ir

Banda­rík­in eru með um 900 her­menn í Sýr­landi og 2.500 í ná­granna­rík­inu Írak. Er það part­ur af alþjóðlegu banda­lagi gegn íslamska rík­inu, sam­tök­um jí­hadísta sem eitt sinn réðu yfir hluta beggja landa.

Sýr­lenska ut­an­rík­is­ráðuneytið sagði í yf­ir­lýs­ingu að árás­irn­ar væru til þess falln­ar að „kveikja upp átök­in í Mið-Aust­ur­lönd­um á afar hættu­leg­an hátt.“ Var árás­un­um bætt við skrá um brot Banda­ríkj­anna á sýr­lensku full­veldi og land­helgi. 

Kem­ur jafn­framt fram í yf­ir­lýs­ingu ráðuneyt­is­ins að Sýr­land for­dæmi þetta grófa brot Banda­ríkj­anna og hafni af­drátt­ar­laust öll­um for­send­um og lyg­um sem banda­rísk stjórn­völd hafa notað til að rétt­læta þess árás.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert