Hútar, vopnaður hópur uppreisnarmanna í Jemen, hafa heitið hefndum vegna loftárása bandarískra og breskra stjórnvalda á Jemen í gærkvöld, sem beindust meðal annars að Sanaa, höfuðborg landsins en þar fara Hútar með völd.
Hútar lýstu því yfir í dag að loftárásir Bandaríkjamanna og Breta muni ekki leggja þá að velli og lofuðu hefndum. Loftárásir voru gerðar á tugi skotmarka og greindu Bandaríkjamenn og Bretar frá þeim í sameiginlegri yfirlýsingu í gær.
Bandaríkjamenn hafa þá einnig gert fjölda loftárása á svæðum tengdum Íran í Írak og Sýrlandi vegna drónaárásar sem þrír bandarískir hermenn féllu í á herstöð í Jórdaníu.
Í gær réðust breskar og bandarískar hersveitir í þriðja skiptið gegn Hútum en Hútar hófu árásir fyrst til þess að sýna samstöðu með Palestínumönnum á Gasasvæðinu. Bandaríkjamenn hafa þá einir staðið að árásum gegn jemenskum uppreisnarhópum en árásir þeirra fyrrnefndu halda áfram á Rauðahafinu.
Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu að loftárásirnar hafi verið til þess að stugga við hersveitum Húta, sem Íranar styðja, til þess að „binda enda á hrottalegar árásir þeirra“.