Efast um fjarvistarsönnun Ásu

Ása Ellerup og börnin hennar Victoria og Christopher.
Ása Ellerup og börnin hennar Victoria og Christopher. Ljósmynd/Gofundme

Lögmaður konu sem fannst látin á Gilgo-strönd í Long Island efast um að Ása Ellerup, eiginkona Rex Heuermann, hafi ekki verið heima hjá sér er morðin voru framin eins og hefur verið haldið fram í málinu.

Bandaríska fréttastöðin Fox News greinir frá því að ef að lögmaðurinn John Ray hafi rétt fyrir sér og að Ása hafi með einhverjum hætti átt þátt í morðunum gæti þurft að fella niður dómsmálið gegn Heu­er­mann. Ása neitar sök. 

Shannan Gilbert 

Ray Tierney, saksóknari í Suffolk-sýslu, hefur haldið því ítrekað fram að Ása hafi verið utanbæjar er morðin sem Heu­er­mann er sakaður um voru framin. John Ray lögmaður dró það hins vegar í efa á málþingi sem hann hélt í St. John's háskólanum í Queens á þriðjudag. 

Ray er lögmaður fjölskyldu Shannan Gilbert. Hún var 25 ára gömul er hún hvarf 1. maí árið 2010. Hvarf hennar leiddi til rannsóknar á Gilgo-strönd þar sem ellefu lík fundust.

Heuermann er grunaður um fjögur morð, en Gilbert er ekki þar á meðal.

Árið 2022 greindi lögregla frá því að líklega hefði andlát Gilbert verið slys þar hún var að hlaupa nærri ströndinni. Á upptöku símtals Gilbert við neyðarlínuna daginn sem hún lést heyrist hún segja: „Það er einhver á eftir mér.“ Lögreglan sagði að Gilbert hefði hljómað talsvert drukkinn og ráðvillt. 

Ray sagðist einnig hafa rætt við vitni sem gæti tengt Heuermann við morðið á Gilbert og hvarfið á Karen Vergata sem sást síðast á lífi 14. febrúar árið 1996. Hendur og fætur Vergata fundust á eyju austur af Gilgo-strönd árið 1996. Það var hins vegar ekki borið kennsl á líkið fyrr en á þessu ári. 

Heuermann við réttarhöldin í september.
Heuermann við réttarhöldin í september. AFP

Efi um komutíma á hótel 

Bob Macedonio, lögmaður Ásu, sagði í samtali við Fox að ef að Tierney saksóknari hefði rangt fyrir sér gæti dómsmálið fallið um sjálft sig þar sem að þá yrði uppi efi um sekt Heuermann.

Ray segist hafa rætt við hótelstjóra sem sagði að Ellerup og börn hennar hafi komið til Atlantic City seinna en rannsakendur töldu sem gæti þýtt að Ása hafi verið heima hjá sér þegar að minnsta kosti eitt morð var framið. 

Rex Heuermann var handtekinn í júlí.
Rex Heuermann var handtekinn í júlí. Michael M. Santiago/Getty Images North America via AFP

Macedonio hafnar þessari skýringu Ray og sendi bréf á hótelið til að fá að vita hvaða starfsmaður gaf upp þessar trúnaðarupplýsingar skjólstæðings síns, ellegar skuli starfsmaðurinn koma fram undir nafni reynist upplýsingarnar ekki réttar. 

Macedonio sagði að alríkislögreglan, lögreglan og allir aðrir rannsakendur hefðu komist að þeirri niðurstöðu að Ása og dóttir hennar Victoria hefðu ekki vitað um að Heuermann hefði framið ódæðin. 

Ray sagðist einnig hafa hitt vitni sem hitti Ásu og eiginmann hennar í svokölluðu „swing“ partíi árið 1996. Macedonio hafnar einnig þeirri staðhæfingu. 

Rannsaka enn öll líkin 

Neama Rahmani, fyrrverandi saksóknari í Los Angeles, ræddi við Fox um stöðu dómsmálsins en hún hefur engin tengsl við það.

Hún sagði að ef það reyndist rétt að Ása hefði verið viðstödd morð þá gæti það orðið til vandræða fyrir saksóknara, „en af hverju myndi saksóknari færa rök fyrir einhverju sem hann væri óviss um?“

Tierny saksóknari sagði að teymi rannsakenda væri enn að rannsaka öll líkin sem fundust á Gilgo-strönd. 

Ása og börn henn­ar tvö hafa skrifað und­ir samn­ing við fram­leiðslu­fyr­ir­tækið Peacock/​NBC um gerð heim­ild­ar­mynd­ar um líf þeirra. Rapparinn 50 Cent er á meðal framleiðanda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert