Trump nýtur ekki friðhelgi

Donald Trump í dómsal.
Donald Trump í dómsal. AFP/Mary Altaffer

Áfrýjunardómstóll hefur úrskurðað að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, njóti ekki friðhelgi gegn ákærum í máli er varðar aðild hans að áhlaupinu á þinghúsið í janúar 2021.

Það er sérstaki saksóknarinn Jack Smith sem höfðar það mál gegn honum.

Úrskurðurinn er áfall fyrir lykilvörn Trumps en hingað til hefur Trump haldið því fram að hegðunin sem Smith ákærði hann fyrir væri hluti af opinberum skyldum hans sem forseti og því væri hann varinn frá refsiábyrgð. Trump hefur ákveðið að áfrýja. 

CNN greinir frá.

Nýtur sömu réttinda og hver annar ríkisborgari

„Í þessu sakamáli hefur fyrrverandi forsetinn Trump orðið að ríkisborgaranum Trump, með öllum vörnum hvers annars sakbornings. En hvers kyns friðhelgi framkvæmdavalds sem gæti hafa verndað hann meðan hann gegndi embætti forseta verndar hann ekki lengur gegn þessari ákæru,“ skrifaði dómstóllinn í úrskurðinum.

Þrír dómarar fjölluðu um málið hjá áfrýjunardómstólnum og komust þeir allir að sömu niðurstöðu. Trump getur nú áfrýjað úrskurðinum beint til Hæstaréttar eða beðið áfrýjunardómstólinn að endurskoða ákvörðunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert