Vantaði skrúfbolta í vél Alaska Airlines

Boltarnir voru fjarlægðir, en líklega ekki festir aftur.
Boltarnir voru fjarlægðir, en líklega ekki festir aftur. AFP/NTSB

Fjórir skrúfboltar sem voru notaðir til að festa hlerann sem flaug af Boeing-vél Alaska Airlines í janúar höfðu verið fjarlægðir í verksmiðju Boeing. Svo virðist sem þeir hafi ekki verið festir aftur.

Þetta kemur fram í skýrslu öryggis- og samgöngunefndar Bandaríkjanna (NTSB), en skýrslan var birt í dag. New York Times greinir frá.

Hler­inn, sem er notaður til að loka gati í skrokki vél­ar­inn­ar, þar sem neyðarút­gangur er gjarnan, losnaði í flugi Alaska Air­lines frá Port­land í Oregon-ríki í Bandaríkjunum til Ontario í Kali­forn­íuríki 5. janú­ar. Eng­in slys urðu á fólki.

Atvikið vakti mikla athygli og var ráðist í úttekt á öllum flugvélum þeirrar tegundar.

Skrúfbolti laus frá því í september

Í verksmiðjunni, sem staðsett er í Renton í Washington, voru boltarnir fjarlægðir til að opna fyrir hlera svo hægt væri gera við skemmda hnoðnagla í vélinni, segir í skýrslu NTSB.

Ekki kom fram í skýrslunni hver hafði fjarlægt boltana. Þó kemur fram að svo virðist sem allir boltarnir hafi ekki verið settir aftur í þegar hlerinn var settur aftur í gatið.

Sem sönnunargagn lagði NTSB fram ljósmynd af hurðinni eftir að hún hafði verið var sett aftur upp, en áður en gert var við innréttinguna í vélinni. Á myndinni virðist vanta þrjá af fjórum boltum.

Í skýrslunni kom fram að myndin hefði fylgt smáskilaboðum á milli Boeing-starfsmanna þann 19. september 2023.

Kyrrsett flugvél Alaska Airlines í flugskýli í borginni Portland í …
Kyrrsett flugvél Alaska Airlines í flugskýli í borginni Portland í Oregon-ríki. AFP/Mathieu Lewis-Rolland/Getty
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert