Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ferðast til Ísraels í dag. Búist er við því að hann muni þrýsta á um vopnahlé í stríðinu á milli Ísraels og Hamas-samtakanna sem hefur staðið yfir í fjóra mánuði.
Blinken ætlar að hitta leiðtoga Ísraels en á ferðalagi sínu hefur hann rætt við ráðamenn í Sádí-Arabíu, Egyptalandi og Katar.
Stjórnvöld í Katar, sem höfðu milligöngu um vopnahlé á fyrri stigum stríðsins, sögðu að Hamas hefði svarað nýrri friðartillögu um að gera hlé á bardögum.
„Það eru athugasemdir við eitthvað en á heildina litið er svarið jákvætt,” sagði Mohammed bin Abdulrahman Al-Thani, forsætisráðherra Katars, eftir fund með Blinken í borginni Doha.