Ísraelsher, IDF, hefur greint frá því að hann hafi fundið göng hryðjuverkasveita Hamas sem grafin höfðu verið undir höfuðstöðvum hjálparstofnunar S.þ. fyrir palestínska flóttamenn, UNRWA, á Gasa. Í göngunum, sem séu 700 metra löng og á 18 metra dýpi, hafi meðal annars fundist mikið af tölvubúnaði og vopnum. Gangnaopið fannst nærri skóla UNRWA og göngin liggja undir byggingu sem nýtt hefur verið sem höfuðstöðvar UNRWA á Gasa, að sögn ísraelska hersins. Þá hafi verið gerð leit í höfuðstöðvum UNRWA fyrir ofan göngin og þar hafi einnig fundist mikið af vopnum, þar með taldir rifflar, skotfæri, handsprengjur og sprengiefni.
Að sögn ísraelska hersins sýna gögn að skrifstofur UNRWA hafi einnig verið notaðar af hryðjuverkasamtökunum Hamas. Þá liggi rafleiðslur á milli höfuðstöðva UNRWA og gangnanna sem sýni að hryðjuverkasamtökin hafi fengið rafmagn frá UNWRA til neðanjarðarstarfseminnar.
Utanríkisráðherra Ísraels hefur krafist afsagnar yfirmanns UNRWA, Philippe Lazzarini, en sá segir að stofnunin hafi ekki notað umrædda aðstöðu frá 12. október síðastliðnum, nokkrum dögum eftir að hryðjuverkasamtökin Hamas réðust inn í Ísrael og myrtu á annað þúsund manns og námu brott fjölda gísla sem margir eru enn í haldi þeirra.
Ljósmyndari AFP fréttaþjónustunnar var á meðal þeirra sem Ísraelsher sýndi umrædd húsakynni og göngin undir þeim. Hamas hefur ítrekað neitað því að hafa grafið net gangna undir skólum, sjúkrahúsum og öðrum borgaralegum innviðum til að dylja og verja starfsemi sína. Aðgerðir Ísraelshers á Gasa eftir innrás Hamas í Ísrael hafa hins vegar leitt í ljós mikla starfsemi hryðjuverkasamtakanna neðanjarðar á svæðinu.