Segist myndu hvetja Rússa til árása

Donald Trump.
Donald Trump. AFP/Patrick T. Fallon

Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseti og líklegur forsetaframbjóðandi Repúblikana, segist myndu hvetja Rússa til árása á þau ríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem ekki standa við fjárskuldbindingar sínar.

Þetta kom fram í ræðu Trump á kosningafundi í Suður-Karólínu í gær. Hann greindi frá samskiptum sínum við leiðtoga ótilgreinds ríkis á NATO-fundi. Trump sagði manninn hafa spurt hvort Bandaríkin tækju til varna fyrir sig gegn Rússum, þótt ekkert hefði verið greitt.

Trump kvaðst hafa svarað neitandi, heldur myndi hann hvetja Rússa til að gera hvað sem þeir vildu. „Þú verður að borga.“

Sagði ummælin skelfileg

Andrew Bates, talsmaður Hvíta hússins, sagði skelfilegt að hvetja til árása á helstu bandalagsríki Bandaríkjanna og sagði Joe Biden forseta ætla að tryggja áframhaldandi samvinnu ríkja.

Trump hefur lengi verið gagnrýninn á NATO og hefur sagt ósanngjarnt að Bandaríkin verji önnur ríki bandalagsins.

Repúblikanar í öldungadeild þingsins höfnuðu á miðvikudag frumvarpi sem hefði tryggt áframhaldandi fjármagn til Úkraínu, stuðning við Ísrael og umbætur við landamæri Bandaríkjanna og Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert