„Heimurinn má ekki leyfa þessu að gerast“

Ísraelsmenn hafa ítrekað ráðist á Gasa.
Ísraelsmenn hafa ítrekað ráðist á Gasa. AFP

Fulltrúar Sameinuðu þjóðanna sögðu fyrr í dag að ef Ísraelar réðust af fullu afli inn í Rafah-borg yrði mannfallið mikið.  

Volker Turk, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt heimsveldin til að koma í veg fyrir innrásina en óttinn við yfirvofandi árás Ísraela hefur aukist töluvert meðal þeirrar milljónar Palestínumanna sem föst er á svæðinu.

Turk hvetur þá sem hafa áhrif til að koma í …
Turk hvetur þá sem hafa áhrif til að koma í veg fyrir árás Ísraela inn í Rafha-borg. AFP

Netanjahú lofar öruggri flóttaleið

Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, lofaði í sjón­varps­viðtali í gær að út­vega „ör­ugga flótta­leið“ fyr­ir óbreytta borg­ara en hann hefur hótað því að senda hermenn inn á fjölmennt Rafah-svæðið.

Segir hann það hluta af markmiði sínu um að útrýma Hamas-hryðjuverkasamtökunum. 

Hafa þessar yfirlýsingar hans vakið mikinn ótta víða um heim.

Endalok mannúðaraðstoðar á svæðinu

Segir Turk í yfirlýsingu að möguleg innrás hersins í Rafah, þar sem um 1,5 milljónir Palestínumanna hafist við og geti hvergi flúið, yrði skelfileg. Ef fram fari sem horfir muni mikill fjöldi óbreyttra borgara, aðallega börn og konur, mjög líklega drepast og særast. 

„Því miður, miðað við mannfallið hingað til á Gasa, er alveg hægt að ímynda sér hvað myndi gerast í Rafah. Fyrir utan allan sársaukann og þjáninguna eftir sprengjurnar og byssukúlurnar, getur þessi innrás í Rafah einnig þýtt endalok mannúðaraðstoðar á svæðinu.“

Bætir hann við að ítrekað hafi verið varað við aðgerðum sem brjóti í bága við stríðslög.

„Heimurinn má ekki leyfa þessu að gerast. Þeir sem hafa áhrif verða að sjá til þess að þetta gerist ekki. Það verður að vera tafarlaust vopnahlé og sleppa þarf öllum gíslum sem eftir eru.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert